Sport

Eru þetta nokkuð skrítnar tölur?

Telma Tómasson skrifar
„Við erum stöðugt að reyna að bæta okkur og enginn leggur af stað inn í daginn með það í huga að fara að dæma illa,“ segir Halldór G. Victorsson, formaður Hestaíþróttadómarafélags Íslands, meðal annars um gagnrýni Bergs Jónssonar eftir lokakeppni í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum fyrir viku.

„Eru þetta nokkuð skrítnar tölur? Maður sér þetta í andlitinu á dómurum. Þetta er akkúrat eins og þeir eru,“ sagði Bergur meðal annars og leyndi því ekki að honum fyndist einhverjir dómarar hygla ákveðnum knöpum.

„Við dómarar reynum að sýna kurteisi og mér finnst að knapar, eins og Bergur, eigi að gera það líka,“ segir Halldór meðal annars í uppgjörsþætti um Meistaradeildina í hestaíþróttum, í kvöld, fimmtudag.

Árni Björn Pálsson, sigurvegari einstaklingskeppninnar í Meistaradeildinni, mætir einnig í sett. „Ætli ég sé ekki eins og krumminn, svona glysgjarn, og sæki því í alla þessa verðlaunagripi?“ segir Árni Björn meðal annars og hlær.

Hann fer yfir töltsýningu sína, dramatíska lokakeppni og upplýsir um leyndarmálið á bak við góða hraðabreytingu í töltkeppni.

Þá verður farið yfir sýningu Guðmundar Björgvinssonar og hins stórstíga Austra frá Úlfsstöðum sem margir klóruðu sér í kollinum yfir, ekki síst dómararnir.

Meistaradeild í hestaíþróttum, samantekt 2018, á Stöð 2 Sport klukkan 21.05.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.