Lífið

Pálmi ætlar að stilla sér upp fyrir framan Sóla

Jakob Bjarnar skrifar
Skemmtunin fyrir norðan, Hólm á Hattinum, gæti tekið meira á taugarnar en Sóli hugði.
Skemmtunin fyrir norðan, Hólm á Hattinum, gæti tekið meira á taugarnar en Sóli hugði.
Pálmi Gunnarsson söngvari ætlar að setja Sóla Hólm stólinn fyrir dyrnar þá er sá síðarnefndi ætlar að troða upp á Græna hattinum á Akureyri á næstunni.

Sóli Hólm, fjölmiðlamaður, skemmtikraftur og eftirherma, hefur átt við krabbamein að stríða á undanförnum mánuðum en hafði fullnaðarsigur við þann volduga óvin. Í kjölfarið ákvað hann að standa við fyrirheit sem hann gaf sjálfum sér fyrir margt löngu, sem er að setja á svið sérstaka uppistandssýningu. Sóli sagði meðal annars frá þessu í þættinum Harmageddon fyrir ekki svo löngu síðan.

Sýningin hefur tekist vonum framar, fullt hús, gríðarleg stemmning og ætlar Sóli að troða upp á Græna hattinum á Akureyri: Hólm á Hattinum, fimmtudaginn 15. febrúar, tilkynnti Sóli fjallbrattur á sinni Facebooksíðu.

En, hann var ekki fyrr búinn að tilkynna þetta en Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður boðaði komu sína:

„Ég mæti og sest beint fyrir framan þig, í hálfs meters fjarlægð. Þetta er hótun,“ segir Pálmi og sýnir hornin. En, Pálmi er búsettur nyrðra.

Þannig er að Sóli er sérfræðingur í að herma eftir Pálma og hefur það verið liður í hans skemmtanahaldi. Sóli er að vonum nokkuð skelkaður og viðurkennir það fúslega: „Ég er í alvörunni hræddur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×