Sport

Keppir á Ólympíuleikunum rúmu ári eftir að hann hálsbrotnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wojtek Wolski.
Wojtek Wolski. Vísir/Getty
Wojtek Wolski hefur þegar fagnað sigri á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang þrátt fyrir að það sé ekki enn búið að flauta til leiks á leikunum.

Ástæðan liggur í þeirri staðreynd að Wolski skuli hreinlega vera í þeim hópi sem gengur út á Ólympíuleikvanginn í Pyeongchang á setningarhátíðinni á morgun.

Það er nefnilega ótrúlegt að Wolski sé búinn að ná fullum styrk hvað þá að hafa tekist að vinna sér sæti í Ólympíuliði Kanadamanna.

Fyrir aðeins sextán mánuðum eða í október 2016 þá varð Wolski fyrir skelfilegum meiðslum. Hann hálsbrotnaði í leik og óttaðist hreinlega um að hann væri lamaður.

11. janúar síðastliðinn var endurkoman fullkomnuð þegar Sean Burke, framkvæmdastjóri Ólympíuliðs Kanadamanna í íshokkí, hringdi í hann og lét hann vita af því að hann færi með á Ólympíuleikanna.

 

Læknarnir sögðu honum fyrst frá því að hálsinn myndi jafna sig sjálfur á fjórum eða fimm mánuðum en eftir tvo mánuði kom í ljós að þetta var ekki að lagast að sjálfu sér.

Hann fór því í hálsaðgerð 10. janúar 2017 sem læknar töluðu að væri eiginlega hans eina von ætlaði hann sér aftur inn á ísinn. Síðan þá hefur hann unnið markmvisst af markmiði sínu, að fá að keppa á Ólympíuleikunum.

Það hjálpaði Wojtek Wolski vissulega að vinna sér sæti í Ólympíuliði Kanada að engir NHL-leikmenn fá að vera með á leikunum.









„Um leið og ég hélt að ég gæti spilað á ný þá fór allt á fullt hjá mér að reyna að vinna mér sæti í liðinu,“ sagði Wojtek Wolski í viðtali við Pro Hockey Talk.

„Fullt af fólki hefur komið verr út úr samskonar meiðslum en ég var heppinn. Ég hugsaði alltaf að ég væri með lukkuna með mér í liði,“ sagði Wolski.







„Þegar einhver talaði um að þetta hafi verið hræðileg meiðsli þá talaði ég strax um að sumir sem lentu í svona meiðslum hefðu aldrei gengið aftur. Þau fengu ekki tækifæri til að labba á ný og þau fengu heldur ekki tækifæri til að spila aftur,“ sagði Wolski.

Það má lesa meira um endurkomu Wojtek Wolski hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×