Sport

Boðið að keppa á ÓL en sagði nei takk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olga Graf með liðsfélögunum sem fá ekki að keppa.
Olga Graf með liðsfélögunum sem fá ekki að keppa. Vísir/Getty
Rússar fá leyfi frá IOC að senda 169 keppendur á Vetrarólympíuleikana í Pyeongchang í Suður-Kóreu en enginn þeirra má þó keppa undir merkjum Rússlands.

Ein af verðlaunahöfum Rússa frá síðustu leikum má taka þátt í ár en hún hefur nú afþakkað boðið. Skautahlauparinn Olga Graf er búin að missa liðsfélaga sína í bann og ætlar ekki að mæta til Pyeongchang.  DR segir frá.

Miklu fleiri Rússar vildu fá að keppa á leikunum en þeir sem fengu grænt ljós. Þeir fá það hinsvegar ekki af því að þeir gátu ekki sýnt fram á það að þeir væru alveg hreinir.

Rússar eru enn í banni eftir að upp komst um víðtækt og skipulagt lyfjamisferli í landinu þar á meðal í tengslum við síðustu vetrarleika í Sotsjí 2014.

Olga Graf var líkleg til afreka í Pyeongchang en hún vann tvenn bronsverðlaun á ÓL í Sotsjí 2014. Olga Graf vann þá brons í 3000 metra hlaupi og svo annað brons í liðakeppni. Það er einmitt liðakeppnin sem spilar aðalhlutverkið í því að Olga Graf sagði nei takk.

Félagar Olga Graf í liðakeppninni fengu nefnilega ekki grænt ljóst og bronsliðið frá 2014 fær því ekki tækifæri til að komast aftur á pall. Olga Graf má hinsvegar taka þátt í einstaklingskeppninni.

„Allar mínar vonir um að keppa á Ólympíuleikunum verða ekki að veruleika af því að íþróttirnar eru orðnar hluti af hrossakaupum í polítík,“ sagði Olga Graf. Hún vill ekki vera peð í höndum pólítíkusana.

Eins og staðan er núna keppa því aðeins 168 Rússar undir fána Alþjóðaólympíunefndarinnar á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu sem hefjast í næsta mánuði.

Olga.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×