Erlent

Tekur ábyrgð á ráðningu falsfréttaritara

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Árið 2018 hefur verið stormasamt hjá þessum stærsta samfélagsmiðli heims.
Árið 2018 hefur verið stormasamt hjá þessum stærsta samfélagsmiðli heims. Nordicphotos/Getty
Elliot Schrage, samskiptastjóri samfélagsmiðlarisans Facebook, tók þá umdeildu ákvörðun að fyrirtækið skyldi kaupa þjónustu af fyrirtækinu Definers Public Affairs, sem hefur stundað andstæðingarannsóknir fyrir Repúblikana, og fékk það til þess að setja af stað neikvæða umfjöllun um samkeppnisaðila. Þetta segir í minnisblaði sem Techcrunch hefur undir höndum.

Þessi viðurkenning hefur trúlega engin áhrif á störf Schrage enda var hann nú þegar á útleið. Schrage sagði upp í júní vegna Cambridge Analyt­ica-hneykslisins en ákvað að starfa áfram þangað til eftirmaður tæki við. Í stað hans kemur Nick Clegg, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands. Schrage segir í minnisblaðinu að rannsóknir á andstæðingum séu nauðsynlegar en bendir á að Clegg muni endurskoða alla vinnu sína með pólitískum ráðgjöfum þegar Bretinn tekur við störfum.

Ráðning Definers var lykilatriði í stórri umfjöllun The New York Times um krísustjórnunaraðferðir sem birtist á dögunum. Þar kom fram að fyrirtækið skrifaði falsfréttir í umboði Facebook og reyndi þannig að tengja gagnrýnendur fyrirtækisins við ungverska auðjöfurinn George Soros.

Elliot Schrage, fráfarandi samskiptastjóri. Nordicphotos/Getty
Ungverjinn er reglulega skotmark samsæriskenninga íhaldsmanna. Þannig hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ýjað að því að Soros fjármagni flóttamannalest Mið-Ameríkumanna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, talað um að Soros hafi keypt Panamaskjölin „og gat notað að vild“ í viðtali á Útvarpi Sögu í júlí 2016.

Einnig ritar Schrage um að Face­book hafi sérstaklega beðið Definers um að rannsaka Soros eftir að auðjöfurinn sagði miðilinn „ógn við almenning“ í ræðu í Davos í janúar. Facebook vildi sum sé rannsaka hvort Soros hefði fjárhagslegar ástæður fyrir gagnrýninni.

„Seinna fréttum við af hreyfingunni „Freedom from Facebook“ sem sagðist grasrótarhreyfing. Samskiptateymið bað Definers um að hjálpa okkur að skilja bakgrunn hreyfingarinnar. Þau komust að því að George Soros fjármagnaði nokkra meðlimi, sem undirbjuggu skjöl sem sýndu fram á að ekki væri um raunverulega grasrótarhreyfingu að ræða og dreifði skjölunum til fjölmiðla.“

Facebook bað Definers hins vegar aldrei um að skrifa falsfréttir, að því er segir frá í minnisblaðinu. Þá er einnig að finna ummæli frá Sheryl Sandberg framkvæmdastjóra þar sem hún segir að Facebook hafi aldrei viljað „taka þátt í herferð gyðingahatara“ gegn títtnefndum Soros.

„Ábyrgðin á þessum ákvörðunum hvílir á herðum samskiptateymisins. Það er ég. Mark [Zuckerberg forstjóri] og Sheryl treystu á að ég myndi stýra þessu án nokkurra vandræða. Ég vissi af og samþykkti ákvörðunina um að ráða Definers og önnur svipuð fyrirtæki. Ég hefði átt að vera meðvitaður um ákvörðunina um að stækka verkefni þeirra. Mér þykir það leitt að ég hafi valdið ykkur vonbrigðum. Ég sé eftir mistökum mínum,“ sagði Schrage í minnisblaðinu.

Zuckerberg var sjálfur í viðtali á CNN í fyrrinótt. Þar kom fram að hann ætlaði ekki að stíga til hliðar vegna hneykslismála ársins og að hann ætlaði ekki að segja Sandberg upp.


Tengdar fréttir

Facebook enn og aftur á hælunum

Forsvarsmenn Facebook segjast ekki hafa reynt að afvegaleiða almenning í tengslum við áróðursherferð Rússa á samfélagsmiðli fyrirtækisins í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.