Erlent

Sádar segja nú morðið á Khashoggi að yfirlögðu ráði

Kjartan Kjartansson skrifar
Nokkrir meintra morðingja Khashoggi eru sagðir tengjast Mohammed bin Salman krónprins. Sádar hafa reynt að fjarlægja prinsinn morðinu af fremsta megni.
Nokkrir meintra morðingja Khashoggi eru sagðir tengjast Mohammed bin Salman krónprins. Sádar hafa reynt að fjarlægja prinsinn morðinu af fremsta megni. Vísir/EPA
Saksóknari í Sádi-Arabíu segir að Jamal Khashoggi hafi verið myrtur að „yfirlögðu ráði“. Vísar hann til vísbendinga sem sameiginlegur starfshópur Tyrkja og Sáda hafi fundið við rannsókn á morðinu. Þá eru saksóknarar sagðir yfirheyra grunaða menn.

Sádar hafa orðið margsaga um dauða Khashoggi á ræðisskrifstofunni í Istanbúl í Tyrklandi 2. október. Upphaflega neituðu þeir að hafa komið nærri dauða blaðamannsins og fullyrtu að hann hefði yfirgefið ræðisskrifstofuna. Rúmum tveimur vikum síðar viðurkenndu þeir loks að Khashoggi hefði látið lífið en þá í átökum við hóp manna sem hann hitti á skrifstofunni.

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu sagði svo um helgina að Khashoggi hefði verið myrtur en þeir sem bæru ábyrgð hefðu ekki gert það í umboði stjórnvalda í Ríad.

Nú hefur ríkisfjölmiðill Sádi-Arabíu eftir ríkissaksóknara þar að Khashoggi hafi vissulega verið myrtur að yfirlögðu ráði. Sú yfirlýsing er nær því sem tyrknesk yfirvöld hafa sagt um að fimmtán manna teymi sem var sent frá Sádi-Arabíu hafi pyntað og myrt Khashoggi og síðan bútað líka hans niður.

New York Times segir að þessi nýjasta breyting á opinberri afstöðu sádiarabískra yfirvalda sé til þess fallin að vekja enn frekari efasemdir um skýringar þeirra á dauða Khashoggi.

Líkið enn ekki komið í leitirnar

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og raunverulegur stjórnandi landsins, hefur sterklega verið bendlaður við að hafa skipað fyrir um morðið. Hann hefur heitið því að þeir seku verði dregnir til ábyrgðar. Sádar hafa handtekið átján manns og tveir ráðgjafar krónprinsins hafa verið reknir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Enn hefur ekkert bólað á líki Khashoggi. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu sína um að hann hafi látið lífið á ræðisskrifstofunni hafa Sádar engar skýringar getað gefið á því hvað varð um líkið.

Tyrkir eru sagðir búa yfir upptökum af morðinu á Khashoggi. Greint var frá því í morgun að Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, hefði fengið að hlýða á upptöku þegar hún heimsótti Tyrkland vegna dauða Khashoggi í vikunni.


Tengdar fréttir

Trump segir sádi-arabíska krónprinsinn mögulega viðriðinn morðið á Khashoggi

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur í fyrsta sinn látið hafa eftir sér að Mohammed bin Salman, sádi-arabíski krónprinsinn, geti mögulega verið viðriðinn morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi sem myrtur var í byrjun október í kjölfar heimsóknar á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi.

Dularfulla morðið á Jamal Khashoggi

Þó að enn sé margt á huldu varðandi morðið á Khashoggi hefur ýmislegt komið fram í fréttum undanfarnar vikur. Hér verður tekið það saman það helsta sem komið hefur fram um þetta dularfulla morð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×