Íslenski boltinn

Teigurinn: Þvílíka gullið sem fer í Hafnarfjörðinn ef FH kemst áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Á miðvikudaginn mæta Íslandsmeistarar FH Maribor frá Slóveníu í seinni leik liðanna í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Það er gríðarlega mikið undir hjá FH-ingum í þessum leik. Komist Hafnfirðingar áfram fara þeir í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og þótt þeir falli þar út eru þeir öruggir með sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Möguleikar FH í þessum stóra og mikilvæga leik voru ræddir í Teignum á Stöð 2 Sport HD í kvöld.

„Við spiluðum við Domzale frá Slóveníu sem er „rankað“ aðeins neðar en Maribor. Domzale er mjög sterkt lið en við Valsmenn áttum samt möguleika. FH á bullandi séns. Þetta Maribor-lið er mjög agað og öflugt fótboltalið með góða og tekníska leikmenn,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, sem var gestur Guðmundar Benediktssonar og Reynis Leóssonar.

Sá síðastnefndi segir að íslensk lið séu alltof oft þjökuð af minnimáttarkennd í Evrópuleikjum.

„Þetta eru betri lið en mér finnst alltaf pínu minnimáttarkennd einkenna okkur. Maður var sjálfur að spila Evrópuleiki og það var alltaf þessi minnimáttarkennd. Við eigum að fara að líta stærra á okkur og FH á séns,“ sagði Reynir en FH fær ansi margar milljónir í kassann ef þeir vinna á miðvikudaginn.

„Þvílíka gullið sem fer í Hafnarfjörðinn ef þeir komast áfram,“ sagði Reynir.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×