Erlent

Flugstjóri farþegavélar dó áfengisdauða rétt fyrir brottför

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Maðurinn hugðist fljúga vélinni frá Kanada til Mexíkó þrátt fyrir að vera dauðadrukkinn.
Maðurinn hugðist fljúga vélinni frá Kanada til Mexíkó þrátt fyrir að vera dauðadrukkinn. Vísir/Getty
Flugmaður í Kanada var handtekinn í þann mund sem hann ætlaði að fara að fljúga farþegaflugvél. Maðurinn var dauðadrukkinn og var mættur í flugstjórnarklefann þegar hann var handtekinn. BBC greinir frá.

Um er að ræða vél á vegum lággjaldaflugfélagsins Sunwing Arlines en hún var á leiðinni frá Calgary til Cancun í Mexíkó með yfir 100 farþega. Áhöfnin sem átti að fljúga með manninum tók eftir undarlegri hegðun hans en að lokum dó maðurinn áfengisdauða í flugstjórnarklefanum.

Þá kallaði áhöfnin til lögregluna sem mætti og handtók manninn. Flugmaðurinn var með yfir þrisvar sinnum leyfilegt magn áfengis í blóðinu. Að sögn lögreglyfirvalda hefði maðurinn getað orsakað stórslys hefði hann komist upp í loft óáreittur en ólíklegt er þó talið að hann hefði ráðið við að stjórna slíkri flugvél í því ástandi sem hann var í.

Maðurinn verður ákærður og fær ekki að fljúga í bráð.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×