Menning

„En ég leik allavega ekki Davíð“

Guðný Hrönn skrifar
Örn segir það hafa verið krefjandi en skemmtilegt að taka þátt í uppsetningu á Guð blessi Ísland.
Örn segir það hafa verið krefjandi en skemmtilegt að taka þátt í uppsetningu á Guð blessi Ísland. vísir/eyþór
„Þetta er leikverk sem er byggt á rannsóknarskýrslu Alþingis og heitir Guð blessi Ísland, kannski af augljósum orsökum þar sem fræg ræða þáverandi forsætisráðherra endaði á þessum orðum,“ segir leikarinn Örn Árnason, spurður út nýjasta leikverkið sem hann fer með hlutverk í.

Örn fer með nokkur hlutverk í sýningunni, spurður nánar út í það: „Ég fer með mörg hlutverk og sömuleiðis allir í leiksýningunni. Við erum leikhópur að reyna að segja þessa sögu, og teikna upp fólkið sem lendir í þessum aðstæðum, sem er bara þjóðin. Í raun og veru erum við bara að reyna að teikna upp samfélagið og hvernig það bregst við hruninu,“ útskýrir Örn.

Hann getur ekki gefið of mikið upp en staðfestir þó að hann fer ekki með hlutverk Davíðs Oddssonar þó að hann komi við sögu í verkinu. Það vekur kannski athygli þar sem Örn hefur leikið Davíð reglulega í þrjá áratugi.

„Nokkrir hafa nú reynt við Davíð í millitíðinni en það er náttúrulega enginn eins góður og ég,“ segir hann og skellir upp úr. Aðspurður hvenær hann lék Davíð fyrst segir hann:

„Mig minnir að það hafi verið í áramótaskaupinu árið 1986. Þegar hann var borgarstjóri.“

Hvað á það að þýða að þú leikir ekki Davíð í þessu verki? „Það er góð spurning. Hins vegar kemur fram í sýningunni ákveðin útskýring á því. Það er þarna ákveðin tenging, hún er svolítið spennandi,“ segir hann og hlær.

„En við hlaupum sem sagt á milli margra hlutverka og það er erfitt að segja til um hvaða hlutverk maður leikur. Mestmegnis snýst þetta um að við sem hópur erum að segja frá. En ég leik allavega ekki Davíð.“

Krefjandi og skemmtilegtPlakat leiksýningarinnar vekur athygli en þar getur að líta eitt stórt partí þar sem kampavínið flæðir. „Já, það er bara það sem þetta var.“

Plakatið fyrir Guð blessi Ísland er eitt stórt partí.MYND/BORGARLEIKHÚSIÐ
Áætluð frumsýning verksins er 20. október. Spurður út í hvernig ferlið á bak við uppsetningu verksins hafi gengið segir Örn: „Þetta hefur verið krefjandi en alveg fáránlega skemmtilegt. 

Þorleifur Örn leikstjóri og Mikael, höfundar verksins, eru bæði vel gefnir og klárir, ég treysti þeim til að koma okkur í höfn með þetta,“ segir Örn.

Örn hrósar öllu teyminu á bak við verkið í hástert. „Það hefur verið alveg ótrúlega gaman að vinna í þessari hópvinnu. Leikhópurinn stórkostlegur, öll sem eitt. Ég held að út úr þessu komi mjög spennandi sýning sem allir hafi gott af því að sjá. Og við ætlum að gera okkar besta til að segja þessa sérkennilegu sögu sem skók þetta sker.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.