Íslenski boltinn

Framkvæmdastjóri Víkings: Milos er ægilega lyginn í þessu ferli

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Milos í leik með Víkingi.
Milos í leik með Víkingi. vísir/ernir
Víkingar eru allt annað en sáttir við fyrrum þjálfara liðsins, Milos Milojevic, sem nú er orðinn þjálfari Breiðabliks.

Milos hætti hjá Víkingum á föstudag og var þá strax orðaður við Blika. Er hann var síðan ráðinn þjálfari Blika í gær fannst mörgum það lykta af hannaðri atburðarrás. Að Milos hefði viljandi komið sér frá Víkingi til að geta tekið við Blikum.

„Þetta var mjög hönnuð atburðarrás. Það er alveg ljóst. Maður er svolítið pirraður yfir þessu,“ segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings.

„Atburðarrásin er klárlega hönnuð og ég ætla að skrifa bók um þetta. Sú bók gæti endað á fjölum leikhússins. Milos er ægilega lyginn í öllu þessu ferli. Síðast í gær er hann að panta gám til Serbíu er við erum að ganga frá við hann. Tveim tímum síðar er hann orðinn þjálfari Blika. Það voru líka hlutir sem gerðust í síðustu viku sem bera þess vitni að þetta hafi allt verið planað. Ég veit samt ekki hversu mikla sök Blikar eiga í þessari atburðarrás. Ég held það sé meira Milos.“

Eftir standa Víkingar þjálfaralausir og virðist vera eitthvað í land að þeir ráði þjálfara í stað Milosar. Dragan Kazic, sem var aðstoðarmaður Milosar, stýrði liðinu í síðasta leik og vill halda áfram.

„Það er vinna í fullum gangi. Ég þori ekki að segja til um hvað þetta mun ganga hratt hjá okkur. Ég er út í Noregi núna og fæ frekari tíðindi í dag,“ segir Haraldur.

„Þetta er samt allt á byrjunarstigi hjá okkur og fyrsta yfirferð í gangi. Það þætti helvíti gott ef þetta kláraðist í dag. Það er bara Breiðablik sem klárar þetta á stuttum tíma.“


Tengdar fréttir

Milos: Ég er enginn David Copperfield

Milos Milojevic, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, var í viðtali hjá Arnari Björnssyni, í kvöldfréttum Stöðvar tvö en þar fór hann yfir gang mála hjá sér undanfarna daga þegar hann hoppaði á milli tveggja liða í Pepsi-deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.