Lífið

Margrét skólar Sólrúnu Diego til: "Ekkert verið að finna upp hjólið“

Benedikt Bóas skrifar
Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans, með bókina fyrir framan sig. Hún segir lítið nýtt koma fram í henni, ekkert sem hún hafi ekki séð áður.
Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans, með bókina fyrir framan sig. Hún segir lítið nýtt koma fram í henni, ekkert sem hún hafi ekki séð áður. VÍSIR/EYÞÓR
Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík, segir nýja þrifbók Sólrúnar Diego ágæta til síns brúks en sum ráðin í bókinni fá hana til að hrista hausinn. Bók Sólrúnar er fimmta söluhæsta bók landsins. Aðeins glæpasagnahöfundarnir Arnaldur og Yrsa ásamt barnabókahöfundunum Ævari Þór og Gunnari Helgassyni skáka henni.

Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans, hefur marga fjöruna sopið í þrifmálum og kann öll trixin í bókinni – bókstaflega. Hún gaf út bókina Allt á hreinu, sem fjallaði um ræstingu á heimilinu, umhirðu um fatnað, þvotti og frágangi. Einnig voru gefin fjölmörg gagnleg húsráð, gömul og ný.



Aðspurð hvort nýir tímar séu komnir í þrif heimilisins segir hún ekki svo vera. Hún sjái fáein góð ráð, eins og að setja eldhúspappír í vaskinn áður en karlmenn raka sig, en það sé ekki mikið nýtt undir sólinni.

„Það eru líkindi með þessari bók og minni bók. Það er ekkert verið að finna upp hjólið,“ segir hún. „Ég myndi ekki nenna að gera allt sem er í þessari bók. Húsmóðirin sem er að vinna úti og þrífur í einu hendingskasti – það þarf að hugsa um hana líka.“

Margrét segir það frábær tíðindi að svo margir fylgist með Sólrúnu þrífa og hafi áhuga á því en það eru nokkur ráð í bókinni sem seint verða kennd í Hússtjórnarskólanum. „Kaflinn um þvottinn á handklæðum fer fyrir brjóstið á mér. Ég myndi ekki vilja nota þá þvottapoka eða það handklæði sem er þvegið á 30° eins og bent er á í bókinni. Handklæðið sem ég fer með í ræktina til dæmis það kemur við gólfið og fer á bekkinn þar sem fólk situr þegar ég þurrka á mér lappirnar. Þar hafa setið berrassaðar konur og ég myndi aldrei þvo það handklæði á 30°. Bómullarefni þola suðuna og 90°.“

Þá minnist Margrét á hvernig tuskunum sé beitt.

„Sérðu hvernig hún heldur á klútnum. Svona á ekki að halda á tusku. Maður brýtur tuskuna saman. Notar einn enda þegar er blautt, svo snýrðu henni við og þurrkar yfir. Notar svo hina hliðina á tuskunni fyrir alveg þurrt,“ segir Margrét.

Heima hefur selst vel fyrir þessi jól og aðeins kunnuleg andlit og nöfn ná að skáka Sólrúnu.
Í bók Sólrúnar er sagt að handklæði sem eru ekki verulega óhrein sé yfirleitt nóg að þvo á 30-40°hita.

Nokkrir kaflar í bókinni fá fína einkunn frá Margréti og trúlega gæti Sólrún útskrifast frá Hússtjórnarskólanum með góða einkunn.

„Kaflinn um stofur er ekki góður. Þar er talað um að þvo leðursófa upp úr ediksvatni sem er súr blanda en leðrið þarf fitu. Uppþvottalögur, grænsápa og fleiri sápur eru búnar til úr fitu. Svo þarf að bera leðurfeiti á til að sófinn springi ekki og endist lengur. Um borð er talað um að strjúka af bletti með hringlaga strokum. Maður nuddar aldrei við þannig heldur eftir því hvernig viðurinn liggur. Tekkborð myndi ég aldrei nudda í hring,“ segir hún og bendir á tekkborðið í stofunni í skólanum sem er mjög gamalt en lítur út eins og nýtt þrátt fyrir mikla notkun á þessum árum.

Heilt yfir er Margrét ánægð með að fólk hafi áhuga á þrifum og að ný bók sé komin í þrifflóruna en hún segir að ekkert nýtt sé í henni. 

Nokkur heilræði MargrétarRifjárn: Það á ekki að skola það með heitu vatni því þá límist osturinn við. Það þarf að skola það með köldu vatni.

Rúmfötin: Maður þvær þau á því hitastigi sem gefið er upp en bómullarrúmföt eru gefin upp fyrir 60-90°.

Uppþvottavél: Þó að framleið- endur segi að það þurfi ekki að skola leirtau þá er betra að skola með köldu vatni. Vélin sér um fituna en leifarnar fara beint í síurnar.

Hnífapör í uppþvottavél: Það er betra að blanda hnífapörum því skeiðablöðin geta fest saman. Maður er vissulega fljótari að taka upp úr en það er betra að blanda. Ég geri þetta þannig að ég legg úr vélinni á viskastykki til að taka um handföngin því ekki vill maður handleika hnífapörin með skítugum puttunum – það er sóðalegt.

Hreinsa hár úr niðurfalli: Nota heklunál. Passa sig bara að missa hana ekki niður.

Gardínur: Það á ekki að hrista gardínur inni. Maður tekur þær niður og dustar þær úti því rykið fer út um allt.

Sængurföt: Þurfa að kólna áður en búið er um rúmin og ekki nota þungt rúmteppi.

Þvottavél: Hafa hana opna, þurrkarann líka. Það á líka að ryksuga þurrkarann að innan og ekki gleyma síunni sem er undir. Muna að nota lítið þvottaefni, það þarf ekki að nota svona mikið.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×