Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Breiðablik - ÍBV 3-2 | Sveinn Aron tryggði sæti Blika í Pepsi-deildinni

Gabríel Sighvatsson skrifar
Blikar fagna eftir leikinn.
Blikar fagna eftir leikinn. vísir/eyþór
Breiðablik náði í 3 stig í fallbaráttuslag gegn ÍBV á Kópavogsvelli. Sveinn Aron Guðjohnsen var hetja Blika þegar hann skoraði sigurmark í uppbótartíma eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

ÍBV komst tvisvar yfir í leiknum en náði að lokum ekki að halda út og sveimar því falldraugurinn enn yifr Vestmannaeyjum.

Af hverju vann Breiðablik?

Bæði lið spiluðu fínan bolta en á endanum vantaði aðeins upp á kraftinn hjá Eyjamönnum. Fyrsta markið var draumamark sem kom upp úr engu og var það ákveðinn skellur fyrir Breiðablik sem hafði verið betri aðilinn.

Heimamenn gáfu þá bara meira í og uppskáru jöfnunarmark en fá síðan á sig klaufalega vítaspyrnu og lenda aftur undir. Önnur vítaspyrna stuttu seinna og góður lokakafli skilaði þeim tveimur mörkum og sigri að lokum.

Þessir stóðu upp úr:

Framlína Breiðabliks var hættuleg og fór mikið fyrir Aroni Bjarnasyni og Hrvoje Tokic átti ágæta spretti líka og skoraði auðvitað úr vítinu.

Sveinn Aron Guðjohnsen var mjög sprækur þegar hann kom af bekknum en hefði getað gert betur í sumum sóknum. Það kom þó ekki að sök því hann skorar sigurmarkið og tryggir Breiðablik áframhaldandi veru í Pepsi-deildinni.

Pablo Punyed, einn mikilvægasti leikmaður ÍBV var góður í dag og framherjarnir tveir, Gunnar Heiðar og Shahab Zahedi Tabar skoruðu sitt hvort markið, þar af átti Shahab algjöra sleggju í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur liðanna var ekki sá besti. Hjá gestunum náðist ekki að loka á Blikana á köntunum þar sem þeir komust trekk í trekk í gegn. Þá voru þeir ekki nógu duglegir að pressa þá og voru undir í baráttunni miðsvæðis.

Hafsteinn Briem gaf Breiðabliki vítaspyrnu, ekki í fyrsta sinn í sumar, og Derby klikkaði í fyrsta markinu eftir að hafa reynt að slá boltann burt. Aftur, ekki í fyrsta sinn í sumar. Blikarnir voru klaufar að fá þessi mörk á sig og hefðu getað gert mun betur í báðum tilfellum. Þá áttu þeir í erfiðleikum með Íranann í liði Eyjamanna, Shahab.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn leika úrslitaleik í lokaumferðinni gegn KA á Hásteinsvelli á laugardag. Þar þurfa þeir að ná í jafngóð eða betri úrslit en Víkingur Ó sem mætir föllnu liði ÍA á sama tíma.

Breiðablik eru hólpnir og spila þýðingarlítinn leik við FH í síðustu umferðinni.

Kristján: Vorum alltof þungir í byrjun leiks

Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, var svekktur að leikslokum. Hans lið fékk á sig mark á lokamínútunni og glutraði niður leiknum.

„Þetta er orðið erfitt núna, við höfum ekki verið að fá á okkur eitt einasta mark í uppbótartíma, en við gerum það núna á móti FH og Blikum. Það er vont merki, sem við þurfum að vinna úr. Þetta sýnir bara að þroskinn í liðinu er ekki það mikill,“ sagði Kristján.

ÍBV bíður hreinn úrslitaleikur við KA frá Akureyri í síðustu umferðinni, á heimavelli.

„Þetta eru allt saman úrslitaleikir og við vissum að við þyrftum mjög líklega að vinna annað hvort þennan leik eða næsta (gegn KA) heima, ég veit ekki úrslitin í hinum leikjunum. Við þurftum að vinna þennan leik og fyrst það var ekki þessi, þá er það bara næsti.“

Kristján var ekkert mjög sáttur við spilamennskuna í dag.

„Við vorum allt of þungir í byrjun leiks, langt frá því sem við ætluðum að gera, varnarlega allt of langt frá mönnum og sóknarlega færðum boltann of hægt. Við vorum eins langt frá okkar leik og við lögðum upp með og eins og mögulegt var.“

„Við komumst samt yfir, í tvígang, og þá eigum við að stíga upp og sýna miklu meiri baráttu, vilja og læti. Ég tala nú ekki um í uppbótartíma, í stöðunni 2-2 að taka ekki stigið, en við erum pínu óþroskaðir ennþá.“

Ívar Orri hafði í nógu að snúast í leiknum. Hann dæmdi á tímapunkti tvær vítaspyrnur með stuttu millibili.

„Mér sýnist Blikinn taka boltann með hendinni í fyrra skiptið og ekki mikið hægt að deila um það en annars er ég heilt yfir sáttur með dómgæsluna. Set nú samt spurningarmerki við seinni spyrnuna.“

Milos: Þeir skoruðu tvö mörk upp úr engu

Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, var ánægður eftir leik.

„Það er alltaf sætt að taka 3 stig á 90. mínútu og við vorum vel komnir að því, við vorum betra liðið í dag og við vorum að gefa þeim mörkin þeirra. Ég vona bara að það hafi verið okkar jólagjöf til þeirra í ár,“ sagði Milos léttur að vanda.

Sigurinn þýðir að Breiðablik mun vera áfram í Pepsi-deildinni á næsta ári.

„Til þess að vera hreinskilinn, þá veit ég ekki hvort ég eigi að fagna eða ekki. Ég er bara þannig að ég fagna þegar ég þarf að fagna og ég er ánægður að við erum búnir að tryggja okkur í deildinni og munum spila við bestu liðin á næsta ári.“

Hvað skildi liðin að í dag?

„Herslumunurinn var að við vorum meira með boltann og stjórnuðum leiknum. Þeir voru svolítið passífir og skora í raun tvö mörk úr engu, eitt skot af löngu og við gáfum þeim seinna markið,“ sagði Milos.

„Áður en þeir skora fyrsta markið fáum við 3-4 dauðafæri sem við nýtum ekki og eins og ég sagði fyrir leik þá vantar okkur smá sjálfstraust á síðasta þriðjungi. Vinnan og baráttan sem strákarnir lögðu í leikinn skiluðu okkur smá heppni og gæði í lokin.“

Milos hafði lítið út á vítaspyrnudómana að setja.

„Eru þeir ekki alltaf réttir? Ég er ekki dómari, ef þeir segja að þetta sé víti, þá er þetta víti og ég er persónulega ekkert að skipta mér af þessu,“ sagði Milos.

Margir hafa sett út á frammistöðu Sveins Arons en hann steig upp í dag og tryggði Breiðabliki stig í dag.

„Frammistaða hans í sumar er eitthvað sem þarf að meta eftir mót. Hann er gríðarlega efnilegur strákur sem þarf að æfa stíft til að verða alvöru framherji og hann hefur alla burði til þess, hvort það gerist hjá honum, þarf hann bara að sýna.“

Sindri Snær: Áfram gakk

Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, var hundfúll út í úrslitin í dag.

„Þetta er skelfilegt. Við þurfum bara að halda áfram og það er leikur strax á laugardag. Við brjótum klaufalega af okkur. Ein fyrirgjöf inn í og við dekkum ekki manninn og við töpum leiknum, það er ekki flóknara en það. En svona mistök gerast í fótbolta,“ sagði Sindri.

Fannst honum þeir eiga meira skilið úr þessum leik?

„Já, mér fannst það. Þetta lá í loftinu, svona jafnteflisleikur, bæði lið voru bara la-la en það er virkilega súrt að tapa þessu og það skiptir engu máli hvað mér finnst?“ sagði Sindri.

„Það var vitað allan tímann að sama hvernig þessi leikur færi, þá þyrftum við alltaf að vinna á laugardaginn þannig að það er bara áfram gakk.“

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Kópavogsvelli og tók myndirnar hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.