Í frétt á vefsíðu Bjarkar segir hún að The Gate sé ástarlag en það fjalli meira um ástina á einhvers konar yfirskilvitlegan hátt.
„Vulnicura var um mjög persónulegan missi og ég held að nýja platan sé um ást sem er jafnvel ennþó stærri. Hún fjallar um að enduruppgötva ástina en á andlegan hátt, ef svo má að orði komast,“ segir Björk og vísar í seinustu plötu sína, Vulnicura, sem fjallaði um skilnað hennar og listamannsins Matthew Barney.
Í ítarlegu viðtali sem birtist á vef tímaritsins Dazed and Confused í dag kemur fram að tónlistarmaðurinn Arca framleiði plötuna ásamt Björk. Blaðamaður Dazed and Confused, sem hefur fengið að heyra eitthvað af lögunum af nýju plötunni þó að hún sé ekki tilbúin, lýsir henni sem svo að hún sé léttari en loft miðað við Vulnicuru.
„Það kemur mjög náttúrulega fyrir mig, kannski meira ómeðvitað heldur en meðvitað, að gera á næstu plötu þveröfugt við það sem ég gerði á þeirri síðustu. Ég gerði Homogenic og hún var stór. Stór og mikil hljóð, tónleikaferðir, fullt af tónleikum úti um allan heim, örugglega mesta rokk og ról sem ég hef verið, en síðan fór ég heim og gerði Vespertine sem var mjög lítil og „míkró.“ Ég held að það sama hafi gerst hér. Vulnicura var mjög persónuleg að öllu leyti. Ég held að ég hafi þurft að „súmma“ út og finna mér nýtt „manífestó,“ segir Björk í viðtalinu sem lesa má hér.