Lífið

Fjölmenntu þrátt fyrir landsleik í fótboltanum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Við viljum stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast  sömu tækifæri,“ segir Sigyn.
"Við viljum stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifæri,“ segir Sigyn. Vísir/Eyþór Árnason
Við vorum að kynna dagskrá vetrarins sem er þéttpökkuð fjölbreyttum fyrirlestrum, málstofum, námskeiðum og ýmsum viðburðum sem hvetja félagskonur til dáða og veita þeim innblástur,“ segir Sigyn Jónsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna, hressilega. Þar er hún að tala um fyrsta viðburð félagsins á þessu starfsári sem haldinn var í Ráðhúsinu síðasta þriðjudag.„Það mættu um 150 manns, sem var framar öllum vonum því það var landsleikur í fótbolta á sama tíma milli Íslands og Úkraínu! Vissulega voru konur í miklum meirihluta en nokkrir karlar höfðu líka áhuga.“Sigyn starfar sem verkefnastjóri og sérfræðingur í Seðlabankanum, í deild sem heitir Fjármálainnviðir, og er líka mentor hjá Startup Reykjavík á sumrin. Hún tók við formannsembætti Ungra athafnakvenna fyrir skemmstu og er full eldmóðs.„Við viljum stuðla að framþróun í samfélaginu og gera stjórnendum og leiðtogum ljóst hvaða tækifæri felast í því að efla ungar konur. Gera fólki grein fyrir kröftum kvenna sem vilja verða leiðtogar,“ lýsir hún.

Stjórn félagsins skipa þær Elísabet Erlendsdóttir, Anna Berglind Jónsdóttir, Andrea Gunnarsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir, Sigyn Jónsdóttir og Helena Rós Sturludóttir.
Félagið var stofnað 2014, og á fyrsta fundinn mættu um 200 manns, að sögn Sigynjar.„Það var gríðarlegur áhugi. Í fyrra voru skráðar í kringum 250-300 í félagið og við erum að taka við nýskráningum. Vorum reyndar að breyta vefsíðunni okkar, uak.is, þannig að allir þurfa að skrá sig upp á nýtt núna,“ lýsir hún.En þarf fólk að hafa sannað sig á einhvern hátt í atvinnulífinu til að hafa möguleika á ganga í félagið? „Nei, það eru hvorki inntökuskilyrði né aldurstakmark. Þó að félagið heiti Ungar athafnakonur þá er það þannig að þær sem finna sig í starfsemi félagsins eru velkomnar á hvaða aldri sem þær eru.“Meðal þess sem fram undan er núna, að sögn Sigynjar, eru panelumræður um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, bíókvöld og fyrirlestrar um launamál og starfsþróun. „Svo ætlum við að halda UAK-dag í vor með ráðstefnu í Hörpu sem helguð verður ungum konum í athafnalífinu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.