Erlent

Fjármálaráðherrann fékk hrossatað í gjöf

Kjartan Kjartansson skrifar
Mnuchin óskar sér líklega að hann hefði frekar fengið kartöflu í skóinn.
Mnuchin óskar sér líklega að hann hefði frekar fengið kartöflu í skóinn. Vísir/AFP
Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og óttast var að væri sprengja reyndist vera hrossatað sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað. Pakkanum fylgdi kort með ókvæðisorðum um Donald Trump forseta og skattalöggjöf repúblikana.

Í frétt Reuters kemur fram að pakkinn hafi fundist í innkeyslu nágranna Mnuchin í Bel Air-hverfi Los Angeles á Þorláksmessu. Sprengjusveit lögreglunnar í Los Angeles gegnumlýsti pakkann áður en hann var opnaður en hann innihélt hins vegar aðeins taðið. Washington Post segir að gjöfin hafi verið merkt frá „bandarísku þjóðinni.“

Mnuchin er sagður hafa verið að heiman þegar uppákoman átti sér stað. Hann er fyrrverandi forstjóri hjá Goldman Sachs-bankanum og hefur fjármagnað Hollywood-kvikmyndir.

Bandaríska leyniþjónustan er sögð rannsaka málið.

Óvinsælar skattabreytingar

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi samþykktu umfangsmiklar breytingar á skattkerfi Bandaríkjanna skömmu fyrir jól. Þær fela í sér meiriháttar skattalækkanir fyrir fyrirtæki og tímabundnar lækkanir fyrir einstaklinga. Gagnrýndur frumvarpsins hafa kallað það meiriháttar gjöf til stórfyrirtækja og stóreignafólks í Bandaríkjunum.

Meirihluti Bandaríkjamanna hefur verið andsnúinn lögunum í skoðanakönnunum þrátt fyrir að greiningar á þeim bendi til þess að skattar flestra Bandaríkjamanna lækki. Fréttir um að Trump forseti hafi sagt auðugum félögum í golfklúbbi hans í Mar-a-Lago á föstdag að þeir hafi „allir orðið miklu ríkari“ eftir að lögin voru samþykkt eru ólíklegar til að breyta skoðun margra að lögin hygli þeim efnameiri á kostnað þeirra snauðari.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.