Erlent

Gríðarhár kostnaður við að tryggja öryggi Trump-fjölskyldunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Melania Trump, og sonur þeirra Donald, Barron, munu áfram búa í New York eftir að Donald Trump tekur við lyklavöldum í Hvíta húsinu.
Melania Trump, og sonur þeirra Donald, Barron, munu áfram búa í New York eftir að Donald Trump tekur við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Vísir/AFP
Verðmiði New York borgar við að tryggja öryggi fjölskyldu Donald Trump er nú um milljón Bandaríkjadalir, um 113 milljónir króna, á dag. Þetta kemur fram í frétt CNN.

Borgaryfirvöld í New York eru með langa reynslu af því að tryggja öryggi háttsettra þjóðarleiðtoga þegar þeir sækja borgina heim, meðal annars í tengslum við starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur þó fyrst og fremst snúist um skemmri tímabil, en nú er ljóst að Trump mun áfram mikið dvelja í borginni eftir að hann tekur við embætti forseta.

Eiginkona hans, Melania Trump, og sonur þeirra Barron, munu áfram búa í New York eftir að Trump tekur við lyklavöldum í Hvíta húsinu, sem gerir það að verkum að kostnaður borgarinnar við öryggisgæslum mun ekki minnka í bráð. Auk þess að tryggja öryggi Melaniu og Barron þarf einnig að tryggja öryggi annarra barna Trump, sem og barnabarna.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, segir það forgangsmál að tryggja öryggi í borginni. „Við erum skuldbundin verðandi forsetanum, fjölskyldu hans og samstarfsfólki að tryggja öryggi þeirra,“ segir de Blasio og tekur fram að lögregluyfirvöld í borginni muni þurfa aðstoð við að dekka kostnaðinn.

Ábyrgðin við að öryggisgæslu forsetafjölskyldunnar liggur að stærstum hluta hjá öryggislögreglunni Secret Service, en staðbundin lögregluembætti aðstoða jafnan við verkið þegar það á við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×