Kínverji um fertugt lét lífið í Reynisfjöru í morgun eftir að stór alda, svokallað ólag, sló hann í bergið þar sem hann stóð í stuðlaberginu.
Sveinn Kristján segist aðeins hafa viðrað þá hugmynd hvort við séum ekki komin á þann stað að þörf sé að vera með gæslufólk eða starfsfólk á þessum stóru ferðamannastöðum.
Hann segir að gæslumenn eða landverðir gætu þar veitt upplýsingar og haft eftirlit með því að fólk kynni sér hlutina og átti sig á þeirri hættu sem sé til staðar á mörgum þessara staða. Ekki einungis í Reynisfjöru heldur víða annars staðar.
Er þetta bundið við þennan stað að aldan geti hrifið menn á haf út, sog og annað, án þess að nokkur maður skynji að það sé hættulegt?
„Nei, í sjálfu sér er þetta ekki eini staðurinn. Það er í raun öll Suðurströndin undir. Að loka Reynisfjöru er í raun ekki möguleiki,“ segir Sveinn Kristján.
„Þetta sogar menn út og þú ferð í öldurótið. Þú gerir ekkert eftir það.“
Sveinn Kristján segir að á skiltunum við Reynisfjöru sé sérstaklega varað við að fara niður í flæðarmálið. Hann segir að mögulega þurfi að endurhugsa skiltauppsetninguna. „Mín reynsla er sú – og maður sér það í löggæslunni – að fólk þori ekki að stilla hraða í hóf fyrr en það fær hressilegar sektir. Spurning er hvort skiltin þurfi ekki að vera ákveðið sjokkerandi líka til að fólk skynji hættuna.“