Innlent

Á gjörgæslu eftir alvarlegt vinnuslys í Skógafossi

Sveinn Arnarsson skrifar
Mynd úr safni af Dettifossi, skipi Eimskips.
Mynd úr safni af Dettifossi, skipi Eimskips.
Starfsmaður á Skógafossi, flutningaskipi Eimskipa, liggur á gjörgæsludeild Landspítalans eftir alvarlegt slys í gærmorgun við lestun í Ísafjarðarhöfn. Féll hann um fjóra metra niður af skipinu. Var maðurinn sendur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann liggur enn á gjörgæslu.

Landspítalinn varðist fregna um málið og vildi ekki veita upplýsingar um líðan mannsins að svo stöddu þegar fréttastofa spurðist fyrir um málið. Hinsvegar staðfesti stofnunin að maður hefði verið fluttur frá Ísafirði í gær eftir slys í Ísafjarðarhöfn sem væri enn á gjörgæsludeild spítalans.

Hvorki fékkst uppgefið hvort maðurinn væri með meðvitund eða hvort hann hafi þurft á aðgerð að halda.

Litlar upplýsingar fengust frá spítalanumFRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Féll með höfuðið á undan

Samkvæmt upplýsingum frá vaktmanni við Ísafjarðarhöfn féll maðurinn af skipinu og steyptist niður á bryggjuna með höfuðið á undan. Starfsmaðurinn hafi við fallið misst meðvitund þrátt fyrir að vera með sterkan hjálm sem líkast til hefur bjargað miklu við fallið. Lögreglan á Ísafirði staðfestir að málið sé á borði þeirra sem og Samgöngustofu.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa, segir fyrirtækið líta slys af þessu tagi mjög alvarlega. Hann segir að snemma í gærmorgun hafi þetta slys átt sér stað við lestun í skipinu. Að öðru leyti viti hann ekki nákvæma málavöxtu en segir málið í öruggum höndum yfirvalda. „Ávallt þegar svona slys eiga sér stað er kölluð til lögregla og Vinnueftirlitið. Við munum vinna náið með opinberum aðilum að því að rannsaka hvað raunverulega gerðist,“ segir Ólafur.

Hann bendir einnig á að mikilvægt sé að komast að því hvað gerðist. „Ef niðurstaða rannsóknar er sú að eitthvað skortir upp á í okkar öryggismálum munum við að sjálfsögðu fara yfir alla okkar verkferla. Við leggjum mikið upp úr öryggi starfsmanna og annarra á okkar vinnusvæðum,“ bætir Ólafur við.

Nokkuð hefur verið um alvarleg vinnuslys síðustu daga. Rafvirki sem vann hjá Veitum lést eftir vinnuslys fyrir um viku síðan. Var hann ástamt vinnufélögums ínum að undirbúa tengingu heimtaugar á nýbyggingarsvæði í Úlfarsárdal er hann fékk straum úr kapli.

Einnig slasaðist maður í grunninum við Hafnartorg í Reykjavík fyrir helgi þar sem hann hapaði nokkra metra og var fluttur í forgangsakstur á Landspítalann með mikla áverka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×