Hin 16 ára Kolbrún Þöll bauð upp á sannkallað ofurstökk á trampólíni; tvöfalt heljarstökk með þremur og hálfri skrúfu.
Þetta flókna stökk heppnaðist þótt Kolbrún hafi ekki náð að negla lendinguna.
„Ég var að gera stökk sem engin kona hefur framkvæmt á stórmóti. Ég gerði það á unglingamóti heima og það gekk vel,“ sagði Kolbrún Þöll í samtali við Vísi eftir að kvennaliðið hafði klárað æfingar sínar í undankeppninni.
Ísland fékk í heildina 56,016 í einkunn og varð efst í undankeppninni. Kolbrún Þöll segir að íslenska liðið ætli að toppa á laugardaginn þegar úrslitin fara fram.
„Þetta gekk ágætlega verð ég að segja. Dansinn var rosa góður en við eigum eitthvað inni á dýnu, það voru nokkur föll þar. En við erum með háan erfiðleikaþröskuld á dýnu og við ætlum að sýna hvað við getum á laugardaginn. Það er ekkert hægt að toppa í dag, við ætlum að toppa á laugardaginn,“ sagði þessi efnilega fimleikakona.
Umrætt stökk Kolbrúnar Þallar má sjá í spilaranum hér að ofan. Hér að neðan má svo sjá keppnina í kvennaflokki í heild sinni. Trampólínæfingar íslenska liðsins hefjast á 1:07:38. Í þriðju og síðustu umferðinni framkvæmir hún annað ofurstökk; yfirslag með þremur og hálfri skrúfu af hesti.