Jose Mourinho hefur skrifað undir samning við Manchester United en það hefur verið tilkynnt á heimasíðu félagsins.
Enskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi lokið viðræðum við félagið síðdegis í gær og samþykkt að gerast eftirmaður Louis van Gaal sem var hjá United í tvö ár.
Sjá einnig:Mourinho: Einstakur heiður í þessari íþrótt að vera stjóri Man. United
Málið komst í fjölmiðla í gær þegar Mourinho sást fara aftur heim til sín með skjöl í sínum fórum sem og rauðvínsflösku. Hann hafði þá nýlokið fundi sínum með Ed Woodward, varastjórnarformanni United.
Mourinho hefur verið sterklega orðaður við United undanfarna mánuði en hann var rekinn frá Chelsea í desember. Van Gaal var rekinn frá United á mánudag, tveimur dögum eftir að hann gerði liðið að enskum bikarmeistara. United mistókst þó að vinna sér inn þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.
Jose Mourinho er 53 ára Portúgali sem hefur verið afar sigursæll á ferli sínum. Hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu með Porto og Inter og orðið landsmeistari með Porto, Chelsea, Inter og Real Madrid.
Mourinho búinn að semja við United

Tengdar fréttir

Mourinho: Einstakur heiður í þessari íþrótt að vera stjóri Man. United
Portúgalinn spenntur fyrir nýju starfi á Old Trafford en hann segist alltaf hafa fundið fyrir tengslum við félagið.