Endómetríósa er krónískur móðurlífssjúkdómur sem talið er að tíu prósent kvenna séu með. Helstu einkenni eru mikill sársauki við blæðingar og kynlíf, þarmavandamál, síþreyta og ófrjósemi.
Vegna biðlista á kvennadeild Landspítalans eru um sextíu konur sem bíða aðgerðar til að fá greiningu á sjúkdómnum eða verkjameðferðar.
Ragnheiður Árnadóttir, sérfræðilæknir kvennadeildarinnar segir biðina erfiða. Verkir geti verið miklir og hætta sé á að konurnar detti út af vinnumarkaði.
„Andlega hliðin er oft erfið og mikið álag á þessar konur og aðstandendur. Einhver hluti er að fást við ófrjósemi og þessi bið hefur áhrif á það,“ segir Ragnheiður.
Ásdís Sif Þórarinsdóttir hefur beðið í ár eftir að fá staðfesta greiningu og í hálft ár eftir aðgerð til að lina verki.
„Ég er búin að vera mikið verkjuð. Sumarið fór í að borða verkjatöflur, alla morgna byrjaði ég á verkjaskammti, bætti við í hádeginu og tók annan til að geta sofnað. Það sást ekki mikið í sól í sumar," segir Ásdís.
„Ég reyndi að vinna en það gekk illa. Sem betur fer er ég núna í þannig námi að ég get verið heima að læra. Og ég er mikið uppi í rúmi í verkjakasti," segir hún.
Síðasta árið hefur Ásdís verið að kljást við kvíða og þunglyndi enda taka verkirnir á andlegu hliðina, sérstaklega þegar engin greining liggur að baki.
„Ég hef oft þurft að beila á vikonum mínum og hringja í vinnuna og þykjast vera veik, en ég var ekki veik heldur með verki. Mér líður oft eins og aumingja."
Ásdís segir það breyta miklu að fá greiningu á hreint og komast sem fyrst í aðgerð svo hún geti haldið áfram með lífið, sætt sig við sjúkdóminn og leitað leiða til að takast á við hann. En hún veit ekki hvenær röðin kemur að henni.
„Ég hef heyrt af einni sem er búin að bíða lengur en ég. Hún fer í fyrsta lagi í janúar. Ég fer þá aldrei fyrr en í febrúar eða mars. Það er erfitt að hugsa um það að eyða jólunum í verkjakasti," segir Ásdís.
Borðar verkjatöflur í öll mál
Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar