Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - ÍA 1-0 | Sigurður Egill tryggði Val sigurinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Valsvelli skrifar
vísir/eyþór
Sigurður Egill Lárusson tryggði Val 1-0 sigur á ÍA í síðustu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í dag með marki í seinni hálfleik.

Valur vann því átta af 11 heimaleikjum sínum á leiktíðinni og hafnaði í fimmta sæti deildarinnar með 35 stig. ÍA endaði í áttunda sæti með 31 stig.

Sigurður Egill skoraði sigurmarkið á 60. mínútu með skalla. Garðar Gunnlaugsson framherji ÍA fékk gullskóinn að leiknum loknum en Kristinn Freyr leikmaður Vals varð að sætta sig við silfuskóinn en báðir reyndu þeir að skora í leiknum án árangurs.Af hverju vann Valur?

Það verður ekki annað sagt en að Valur hafi unnið verðskuldaðan sigur. Liðið skapaði sér fleiri færi, var mikið meira með boltann og skoraði eina mark leiksins. Valur hefði í raun átt að skora annað því Nikolaj Hansen sendi á Kristinn Freyr sem var rangstæður þegar markið var galopið fyrir Hansen sem vildi hjálpa félaga sínum til að ná gullskónum.

Leikurinn snérist að nokkru leyti um baráttu Garðars Gunnlaugssonar og Kristins Freys um gullskóinn án þess að allur sóknarleikur liðanna hafi snúist um þá tvo. Garðar fékk besta færið til að skora en Anton Ari varði vítaspyrnu hans mjög vel.Þessir stóðu upp úr

Markverðir beggja liða fengu nóg að gera en Anton Ari Einarsson náði að halda marki sínu hreinu með mjög góðum markvörslum auk þess að koma vel út í fyrirgjafir Skagamanna.

Kristinn Freyr og Sigurður Egill voru góðir í sóknarleik Vals, sköpuðu mörg færi og hefðu báðir getað skorað fleiri mörk en eina markið hans Sigurðar.Hvað gerist næst?

Tímabilið er búið en Valur tryggði sér sæti í Evrópukeppninni að ári með því að vinna bikarkeppnina fyrr í sumar. Valur náði bestum árangri allra liða á heimavelli en til að liðið nái að keppa við FH þarf það að gera mun betur á útivelli. Liðið vann engan grasleik í deildinni í sumar.

ÍA er búið að byggja upp mjög öflugan grunn. Liðið veðjaði á unga heimamenn og uppskeran tveimur stigum meira en á síðustu leiktíð. Gunnlaugur Jónsson er á réttri leið með liðið og mun byggja á þessum grunni á næstu leiktíð en liðið var ekki langt frá því að berjast um Evrópusæti í síðustu umferðunum.

Kristinn: Hélt þetta myndi komaKristinn Freyr Sigurðsson varð að játa sig sigraðan í baráttunni við Garðar Gunnlaugsson um gullskóinn þegar þeim mistókst báðum að skora í dag.

„Ég hélt að þetta myndi koma þegar Garðar klúðraði, þá hugsaði ég, þetta er að fara að gerast,“ sagði Kristinn Freyr miðjumaður Vals.

„Ef þú hefði boðið mér silfurskóinn fyrir tímabilið þá held ég að ég hefði tekið það.“

Kristinn Freyr náði að koma boltanum í markið í leiknum en var dæmdur rangstæður og hafði Kristinn ekkert út á það að setja.

„Ég er fyrir innan. En það var mjög fallegt af Nikolaj (Hansen) að gefa á mig. Þetta var hárréttur dómur.

„Ég hugsaði kannski aðeins meira um að skora heldur en í öðrum leikjum. Við vorum ekkert að spila upp á að ég myndi skora, það var ekki þannig. Við vildum að sjálfsögðu klára mótið með sigri,“ sagði Kristinn Freyr.

Garðar: Mjög sætt að hafa klárað skóinn„Við lögðum upp með að ná sigri og vera þéttir. Flest mörk sem ég hef skorað í sumar hafa komið eftir að við höfum spilað þétt,“ sagði Garðar Gunnlaugson sem neitaði því að leikur ÍA hafi snúist um að tryggja honum gullskóinn.

„Ég fékk fullt af færum í dag og auðvitað víti líka. Það er mjög sætt að hafa klárað skóinn, ég neita því ekki.“

Garðar fékk dauðafæri til að tryggja sér gullskóinn endanlega þegar hann tók vítspyrnu seint í seinni hálfleik en Anton Ari Einarsson markvörður Vals varði mjög vel frá honum.

„Ég hafði æft þetta í vikunni og þá setti ég boltann aðeins ofar. Ég náði honum ekki ofar í dag og hann gerði mjög vel í að verja þetta,“ sagði Garðar.

Valur vann verðskuldaðan sigur þrátt fyrir að Garðar hefði getað jafnað leikinn úr vítaspyrnunni.

„Valur er mjög vel spilandi lið. Sérstaklega hér á gervigrasinu á heimavelli. Það hefur sýnt sig í sumar. Það er mjög erfitt að eiga við þá á blautu gervigrasi.“

Garðar lék í öllum 22 leikjum ÍA í deildinni í sumar, skoraði 14 mörk  og lék heilt yfir mjög vel. Garðar er 33 ára gamall og engin ástæða til annars en að ætla að hann leiki áfram með bernskufélagi sínu.

„Ég er ekkert hættur. Ég stefni á að gera nýjan samning við ÍA og klára ferilin með þeim,“ sagði markakóngur Pepsi-deildarinnar.

Gunnlaugur: Ég verð áfram„Ég held að þegar við séum búnir að melta þetta í einhvern smá tíma að þá verðum við sáttir við þetta tímabil,“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA.

„Þetta er þrískipt. Við byrjum mjög illa og erum í botnsæti þegar við förum inn í EM-fríið. Endurkoman þar er aftur á móti geggjuð. Við vinnum átta af tíu leikjum áður en við förum aftur í landsleikjafrí.

„Því miður náðum við okkur ekki alveg í gang aftur eftir það. Fyrsti leikur eftir það er Þróttur og við töpum honum og það gefur tóninn og er ástæða þess að við lendum í áttunda sæti.

„31 stig í mjög gott. Ég held að Víkingur hafi farið í Evrópusæti með 30 stigum fyrir tveimur árum. Það sýnir líka að deildin er mjög jöfn og það er stutt á milli,“ sagði Gunnlaugur.

Sigur Vals í dag var verðskuldaður en lið ÍA sem er að mestu byggt á heimamönnum hefur tekið miklum framförum í sumar og er komið með sterkan grunn til að byggja á.

„Við eigum að jafna þennan leik í vítinu og þá getur maður ályktað að leikurinn hefði farið öðruvísi en ég held að sigur Vals hafi verið sanngjarn. Heilt yfir getum við verið sáttir en þetta er lærdómsríkt tímabil.

„Ég verð áfram og vonandi mitt teymi. Við höfum verk að vinna. Það er komið ákveðið bragð og það eru mjög spennandi leikmenn á leiðinni.

„Hópurinn og leikmenn hafa tekið skref í sumar sem þeir geta unnið áfram með og við getum gert liðið betra,“ sagði Gunnlaugur að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.