Innlent

„Getum ekki endalaust borgað með þessu“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sauðfjárbændur hafa áhyggjur af stöðu greinarinnar eftir tilkynningu um að afurðaverð til þeirra verði lækkað verulega. Bóndi á Suðurlandi segir tekjuskerðinguna svo mikla að ungt fólk í greininni sé farið að hugsa sinn gang, ekki sé endalaust hægt að borga með framleiðslunni.

„Þetta er ekki gott, hvorki fyrir okkur né aðra í greininni. Við vildum sjá hækkanir, það hefur ekki verið hækkun frá 2013,“ segir Bjarni Másson bóndi í Háholti í Skeiða - og Gnúpverjahreppi.

Afurðastöðvar hafa boðað verðlækkun fyrir lambakjöt sem nemur á bilinu fimm til tólf prósentum. Samkvæmt útreikningum Landsambands Sauðfjárbænda er það tæplega 600 milljón króna tekjulækkun miðað við að framleiðsla verði sú sama og í fyrra.

„Ég held að það sé klárt mál að ungt fólk sem er tilbúið að gera eitthvað annað, það bara hjóti að hugsa sinn gang. Eðli málsins samkvæmt. Það er ekkert annað að gera í stöðunni. Við erum ekki tilbúinn til þess og getum ekki endalaust tekið þetta úr okkar vasa,“ segir Bjarni. 

Skýringar afurðastöðvanna fyrir lækkununum eru fyrst og fremst samdráttur í útflutningi. Enn séu til um átján hundruð tonn í frystum landsins frá síðustu sláturtíð.

„Ég geri nú ekki mikið úr því. Þetta er ekki meira en verið hefur undanfarin ár, og minna en í fyrra. Þá var enginn að tala um neinar birgðir eða kjötfjöll. Við teljum bara að það sé ekki okkar að taka þetta allt á okkur. Við viljum líka sjá að sláturleyfishafar sæki þessa versnandi afkomu hjá þeim inn í smávöruverslunina sem virðist geta skammtað sér arð að vild og græðir tá á fingri,“ segir Bjarni.

Hann óttast afleiðingarnar fyrir greinina.

„Það er enginn í þessu til að maka krókinn eða græða peninga. Þetta er ákveðið hugsjónastarf og menn hafa gaman að þessu eins og svo mörgu öðru. en þó að þetta sé skemmtilegt þá getum við ekki endalaust borgað með þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×