Innlent

Vilja að herstöðin í Keflavík verði opnuð á ný

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarísk stjórnvöld eru hvött til þess að opna herstöðina í Keflavík í nýrri skýrslu.
Bandarísk stjórnvöld eru hvött til þess að opna herstöðina í Keflavík í nýrri skýrslu. vísir/Vilhelm
Bandarísk stjórnvöld eru hvött til þess að opna bækistöðvar sínar í Keflavík á nýjan leik í nýrri skýrslu frá Center for Strategic & International Studies (CSIS).

Skýrslan nefnist Neðansjávarhernaður í Norður-Evrópu og var kynnt bandarískum yfirvöldum fyrir rúmri viku. Í skýrslunni er lagt til að Bandaríkjastjórn hefji að nýju kafbátaleit frá Keflavíkurflugvelli og að stofnað verði til samstarfs við Svía og Finna um varnir gegn kafbátum.

Í skýrslunni segir að Rússar hafi aukið umsvif sín neðansjávar, bæði á Eystrasalti sem og á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin og bandamenn þeirra hafi látið það hjá líðast að viðhalda styrk sínum til þess að sporna við þessari þróun auk þess sem að auka þurfi á samstarf á milli ríkjanna á svæðinu.

Mikilvægt sé að þessari þróun sé snúið við og er því mælt með að opnuð verði á nýjan leik herstöð Bandaríkjanna í Keflavík auk þess sem að hvetja eigi Norðmenn til þess að opna á nýjan leik kafbátabækistöð sína í Olafsvern í Norður-Noregi. Bækistöðin er nú leigð af rússneskum fyrirtækjum.

Í febrúar var greint frá því að bandaríski sjóherinn hafi farið fram á fjárveitingu til þess að búa flugskýlin á Keflavíkurflugvelli undir P-8 Poseidon eftirlitsflugvél sem hefði það að markmiði að fylgjast með rússneskum kafbátum við Íslandsstrendur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra sagði þó þá að engar viðræður hafi átt sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi.

Stutt er þó síðan Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna undirrituðu yfirlýsingu aukið varnarsamstarf á milli Íslands og Bandaríkjanna.

Yfirlýsingin kveður meðal annars á um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátaleitarvéla, náið samráð um öryggis- og varnarmál og viðhald og rekstur varnarmannvirkja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×