Innlent

Einar Bárðar kemur Secret Solstice til varnar: „Þessi gagnrýni á hátíðina Secret Solstice fannst mér ómakleg“

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar segir hátíðina þá best skipulögðu og framkvæmda frá „upphafi skipulags tónleikahalds og/eða útihátíða á Íslandi.“
Einar segir hátíðina þá best skipulögðu og framkvæmda frá „upphafi skipulags tónleikahalds og/eða útihátíða á Íslandi.“ Vísir/Hanna
„Ég er þakklátur þeim sem leggja svona stórvirki á sig til að gleðja og skemmta okkur hinum. Ekkert er þó yfir gagnrýni hafið og örugglega hægt að gera enn betur en þessi gagnrýni á hátíðina Secret Solstice fannst mér ómakleg,“ segir Einar Bárðarson um tónlistarhátíðina Secret Solstice sem fór fram í Laugardal í Reykjavík um liðna helgi.

Einar sá sig knúinn til að rita stöðuuppfærslu á Facebook til að koma hátíðinni til varnar vegna frétta af skipulagsleysi og skorti af upplýsingum til tónleikagesta. 

Einar, sem nú starfar fyrir Kynnisferðir en var áður hjá Höfuðborgarstofu og reyndur tónleikahaldari og umboðsmaður, segist hafa sótt hátíðina síðastliðin þrjú ár í Laugardalnum og segir hana vera án nokkurs vafa sú best skipulagða og framkvæmda frá „upphafi skipulags tónleikahalds og/eða útihátíða á Íslandi.“

Hann segir val á listamönnum, umgjörð, svið, hljóð, þrif, öryggisgæsla, veitinga- og varningssala hafa verið upp á tíu. Hann segir Secret Solstice-appið einnig hafa tekist vel til í hönnun þar sem hann fékk ábendingar og fréttir af breytingum á dagskrá. 

Hann segir breytingarnar á dagskránni hafa verið meira og minna vegna tafa á flugi til landsins sem ekki sé hægt að gera tónleikahaldara ábyrga fyrir. 

„Slíkar breytingar flokkast sem "Force Major" sem löglærðir þekkja betur - svokallaðar "aðstæður utan valdsviðs tónleikahaldara eða listamannanna",“ skrifar Einar.

Seinkunin á tónleikum Die Antwoord var óhjákvæmileg að mati Einars og sömuleiðis að færa tónleika sveitarinnar inn í Laugardalshöllina.

„Svo voru það tónleikar Die Antwood, en þeim varð að fresta vegna seinkunar á flugi, þeir gátu ekki spilað fyrr en eftir 11:00 en þá voru þeir komnir inn á banntíma tónlistarflutnings utan húss. Skipuleggjendunum voru þá færir tveir kostir a) sleppa tónleikum DA eða b) Færa þá inni í minni Laugardalshöll og halda þá þar, en stóra Laugardalshöllin var ekki laus eða aðgengileg hátíðar höldurum. Ég er ekki viss hvor kosturinn er betri en ég hallast á það að kostur b) hafi verið betri,“ segir Einar.

Hann segir neyslu kannabisefna hafa verið rædda en segir tónleikahaldara bera þar svipaða ábyrgð og borgarstjórinn í Reykjavík, forsætisráðherra og forseti Íslands.

„Þetta bara gekk ekki eftir með "Vímuefnlaust Ísland 2000" , en við skulum öll halda þeirri baráttu áfram. Það sem mestu máli skiptir þó að aldrei hefur komið til nauðgana eða alvarlegs ofbeldis á þessari hátíð og vonandi verður svo um ókomna tíð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×