Innlent

Fótboltamót eins og EM „segull fyrir skipulagða glæpastarfsemi“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Íslenskir stuðningsmenn ættu að vera á varðbergi.
Íslenskir stuðningsmenn ættu að vera á varðbergi.
Íslenskir lögreglufulltrúar á vegum Ríkislögreglustjóra í Frakklandi brýna fyrir Íslendingum að geyma ekki verðmæti í eftirlitslausum bílum á meðan á leikjum Íslands á mótinu stendur. Nokkrir Íslendingar lentu í því í gær að brotist var inn í bíla þeirra og farangur tekinn.

Tjörvi Einarsson, lögreglufulltrúi í stjórnstöðinni í París, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir lögreglu ekki hafa nákvæma tölu yfir fjölda Íslendinga sem lentu í þessu. Innbrotin áttu sér stað á meðan á leik Íslands og Portúgal stóð í gær.

„Þetta er eitthvað sem fólk þarf að vera meira vakandi fyrir erlendis og sérstaklega í kringum þetta mót því að það er náttúrulega segull fyrir skipulagða glæpastarfsemi,“ segir Tjörvi. Hann segir að smáglæpir gleymist oft þar sem rík áhersla er lögð á að sporna við hryðjuverkum og bregðast við átökum í kringum fótboltabullur. Þó geta smáglæpir haft gríðarlega mikil áhrif á hinn almenna borgara; það er ekkert grín að tapa öllum fötunum sínum, vegabréfinu eða miða á næsta leik. 

Sjá einnig: Brotist inn í bíla íslenskra stuðningsmanna á meðan strákarnir léku gegn Portúgal 

„Svona mikill mannfjöldi dregur að sér skipulagða glæpastarfsemi og afbrotahópa. Þeir eru fljótir að kveikja á erlendum bílnúmer og að þar séu líklega ferðamenn sem eru með einhver verðmæti í bílnum. Við viljum endilega brýna fyrir fólki að passa upp á verðmæti í bílum, reyna að leggja bílum á öruggum stöðum og helst í vöktuðum bílastæðahúsum. Ef ekki verður komist hjá því að geyma verðmæti í bílum þá er mikilvægt að reyna að hylja verðmætin eins og kostur er.“ 

Gæti orðið enn stærra vandamál fyrir næsta leik

Næsti leikur Íslands er á móti Ungverjalandi og fer hann fram í Marseille. 

„Við óttumst að þetta geti orðið enn stærra vandamál í Marseille. Því Marseille er mun stærri borg en Saint-Étienne. Það er líklegt að þeir sem leggi leið sína þangað reyni að komast í feitt eins og sagt er.“ 

Ríkislögreglustjóri sinnir ákveðnu upplýsingahlutverki milli lögreglunnar í Frakklandi og Íslendinga, bæði á mótinu og hér heima. Með það að augnamiði stofnaði embættið Facebook-síðu, Twitter-reikning og Instagram. Birtar voru leiðbeiningar á Facebook varðandi hvernig skal varast vasaþjófa en það er nokkuð algengt að fólk tapi verðmætum vegna þeirra í Frakklandi. 

„Vasaþjófnaður er stórt vandamál víða um Evrópu og þeir sem stunda hann vinna ýmist einir en stærsta og erfiðasta vandamálið eru skipulögðu gengin sem vinna þvert á landamæri,“ segir í pistli Ríkislögreglustjóra. Þar er sérstaklega varað við mismunandi aðferðum sem þjófarnir beita. 

Embættið hvetur alla þá sem hyggjast sækja mótið að kynna sér þessar leiðbeiningar og vera á varðbergi. 

Að öðru leyti fór gærkvöldið sérstaklega vel fram. Íslenskir stuðningsmenn til fyrirmyndar en mikill fögnuður braust út meðal landsmanna eftir að við „sigruðum“ Portúgal 1-1.

„Það var bara brjáluð stemning. Ég held það sé ekki hægt að orða það öðruvísi,“ segir Tjörvi. Hann segir þó flesta Íslendinga hafa farið tiltölulega snemma frá Saint-Étienne þar sem flestir gista annars staðar.

Stuðningsmenn landa á borð við Rússland og England hafa valdið vandræðum á mótinu en brotist hafa út slagsmál og menn slasast alvarlega. Tjörvi segir þetta eiga sérstaklega við um fótboltaklúbba sem eru að berjast sín á milli. Þó sé mikilvægt að vera ekki að ögra stuðningsmönnum annarra liða.

„Sumir geta verið viðkvæmir fyrir þessu, bara passa sig að vera ekki að tefla neinu í tvísýnu.“  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×