Lífið

Nýr „brenni­vín­smála­ráð­herra“ ís­lenskur ljós­myndari í Noregi

Bjarki Ármannsson skrifar
„Það verður allavega hlegið að þessu til morguns, ef ekki út vikuna,“ segir Kristín Jóna Guðjónsdóttir.
„Það verður allavega hlegið að þessu til morguns, ef ekki út vikuna,“ segir Kristín Jóna Guðjónsdóttir.
„Það verður allavega hlegið að þessu til morguns, ef ekki út vikuna,“ segir Kristín Jóna Guðjónsdóttir, annar tveggja Íslendinga sem birtast eldsnöggt í kostulegu innslagi breska grínistans John Oliver um stjórnmálaástandið á Íslandi. Innslagið hefur vakið mikla athygli á íslenskum miðlum og samfélagsmiðlum nú í morgun.

Ólíkt hinum Íslendingnum, Stefáni Boga Sveinssyni bæjarfulltrúa, er Kristín ekki flokksbundinn Framsóknarmaður. Hún kveðst ópólitísk, enda er hún nú búsett í Noregi.

Kristín segir bróður hennar hafa sent henni tölvupóst í morgun og spurt hana hvort hún hefði séð atriðið. Í fyrstu hafi hún talið að um einhverskonar leik væri að ræða, þar sem Facebook-mynd af viðkomandi birtist í myndskeiðinu.

„Þannig að ég ætlaði að senda systur minni skilaboð og spyrja hvort það kæmi mynd af henni,“ segir Kristín. „En svo svarar hún: Hvers vegna er mynd af þér þarna?“

Innslag Oliver má sjá hér að neðan en þátturinn í heild sinni verður sýndur á Stöð 2 annað kvöld klukkan 22:40, með íslenskum texta.

Skýringin er þó tiltölulega einföld: Kristín er sjálf ljósmyndari og sendi myndina af sér inn á alþjóðlegan myndabanka. 

„Ég fór einmitt og kíkti og ég hef sett „Iceland“ sem eitt af einkennisorðunum með myndinni,“ segir hún. „Ég veit ekki alveg hvers vegna ég hef gert það en ég greinilega græði á því.“

John Oliver og félagar hafa þó greinilega átt við upphaflegu myndina og bætt við hönd sem heldur á Brennivínsflösku. Er Kristín í þættinum í hlutverki nokkurs konar „brennivínsmálaráðherra.“

„Vinir mínir segja að myndin sé augljóslega „feikuð,“ þar sem þar er brennivínsflaska,“ segir hún. „Hefðu þeir haft vit á að setja hvítvínsflösku, þá hefðu allir trúað þessu.“

Hún segist telja að Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr forsætisráðherra, þurfi að standa sig vel þar sem hún er, samkvæmt þætti Oliver, næst í röðinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×