Enski boltinn

Búið að kæra Vardy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að kæra Jamie Vardy til aganefndar sambandsins vegna hegðunar hans eftir að honum var vísað af velli í leik Leicester gegn West Ham um helgina.

Vardy brást illa við eftir að hann fékk áminningu fyrir leikaraskap en það var annað gula spjaldið hans í leiknum. Lét hann Jon Moss, dómara leiksins, heyra það.

Leicester var þá í 1-0 forystu eftir að Vardy hafði skorað í leiknum en lenti svo 2-1 undir. West Ham fékk vítaspyrnu á 83. mínútu en Leicester var einnig kært fyrir að hafa ekki stjórn á leikmönnum sínum vegna þeirrar ákvörðunar.

Sjá einnig: Ranieri neitaði að tjá sig um dómarann

Leicester náði þó að tryggja sér dýrmætt jafntefli með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma en nú er líklegt að liðið verði án Vardy í næstu tveimur leikjum, að minnsta kosti. Vardy er ásamt Harry Kane markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 22 mörk.

Liðið á fjóra leiki eftir af tímabilinu og þarf átta stig úr þeim til að gulltryggja sér titilinn. Leicester á næst leik gegn Swansea, þá Manchester United, Everton og Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×