Fótbolti

Shearer hvetur enska landsliðið til að fanga andann frá 1996

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fótboltinn kom heim 1996.
Fótboltinn kom heim 1996. vísir/getty
Enska landsliðið freistar þess að fylgja eftir sigrinum frábæra á heimsmeisturum Þjóðverja þegar það tekur á móti Hollandi í vináttulandsleik á Wembley í kvöld.

Þetta verður í 32. sinn sem liðin mætast en Englendingar hafa yfirhöndina í innbyrðisviðureignum þeirra. England hefur unnið 13 leiki, Holland átta og 10 sinnum hafa liðin skilið jöfn.

Sjá einnig: Matthäus:Enska landsliðið getur orðið eitt af þeim bestu í heiminum

Það eru hins vegar liðin 20 ár frá síðasta sigri Englendinga á Hollendingum. Liðin mættust í riðlakeppni EM 1996 á Englandi þar sem heimamenn unnu eftirminnilegan sigur, 4-1, sem er talinn einn sá flottasti hjá enska liðinu á stórmóti frá upphafi.

Alan Shearer skoraði tvö mörk í umræddum leik og á Twitter í dag hvatti þessi markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar leikmenn Englands til að fanga smá af andanum frá 1996.

Englendingar byrjuðu EM ekkert sérstaklega vel og gerðu 1-1 jafntefli við Sviss í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Enska liðið náði sér betur á strik í næsta leik gegn Skotum og fór með sigur af hólmi, 2-0. Shearer og Paul Gascoigne skoruðu mörkin en mark þess síðarnefnda er afar eftirminnilegt.

Hollendingar voru einnig með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina og því var leikur liðanna á Wembley 18. júní 1996 úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum.

Enska liðið, sem var á þessum tíma undir stjórn Terry Venables, spilaði frábærlega í leiknum þótt það hafi vissulega verið heppið hversu illa Hollendingar fóru með færin sín.

Shearer kom Englandi í 1-0 með marki úr vítaspyrnu sem Paul Ince fiskaði. Sá brotlegi, Danny Blind, er þjálfari hollenska liðsins í dag.

Staðan var 1-0 í hálfleik og á 51. mínútu tvöfaldaði Teddy Sheringham forskotið með skalla eftir hornspyrnu Gascoigne.

Sex mínútum seinna skoraði Shearer fallegasta mark leiksins eftir undirbúning Gascoigne og Sheringham. Sá síðastnefndi bætti svo fjórða markinu við á 62. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir að Edwin van der Saar varði skot Darrens Anderton.

Patrick Kluivert lagaði stöðuna fyrir Holland þegar tólf mínútur voru til leiksloka en nær komust þeir hollensku ekki.



Englendingar slógu Spánverja út í 8-liða úrslitunum eftir vítaspyrnukeppni og mættu Þjóðverjum í undanúrslitum. Úrslitin í þeim leik réðust líka á vítapunktinum.

Bæði lið skoruðu af öryggi úr fimm fyrstu spyrnum sínum áður en Gareth Southgate klúðraði sínu víti í bráðabana. Andreas Möller tryggði svo Þjóðverjum sæti í úrslitum með því að skora úr síðustu spyrnu þeirra. Þýska liðið vann svo það tékkneska í úrslitaleiknum á gullmarki Olivers Bierhoff.

Þrjátíu ára bið Englendinga eftir sigri á stórmóti lauk ekki 1996 og raunar stendur hún enn yfir en í ár eru 50 ár liðin frá því England vann HM á heimavelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×