Innlent

Rakarastofa í höfuðstöðvum NATO: „Reiðubúnir að taka þátt í að jafna hlut kynjanna“

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá jafnréttisráðstefnunni í höfuðstöðvum Nato.
Frá jafnréttisráðstefnunni í höfuðstöðvum Nato. Vísir/Twitter
„Við karlmenn eigum sjaldan frumkvæði í jafnréttismálum en við erum reiðubúnir að taka þátt í að jafna hlut kynanna,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í opnunarávarpi sínu á jafnréttisráðstefnu sem haldin var í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag undir merkjum Rakarastofunnar. 

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegi kvennadagurinn, en  hugmyndin að baki ráðstefnunni er að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna en fyrsta Rakarastofuráðstefnan var haldin fyrir ári síðan hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, en ætlunin er að halda Rakarastofur í öllum helstu alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Í opnunarávarpi sínu sagði Gunnar Bragi að jafnréttismál væru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Rakarastofuráðstefnan væri leið til að virkja karla í jafnréttisbaráttu.

Gunnar Bragi sagði Atlantshafsbandalagið hafa lagt sitt af mörkum til að styðja konur, m.a. með því að fylgja eftir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. En gera þyrfti mun betur, hvetja konur til aukinnar þátttöku í öryggis- og varnarmálum og til að sækjast eftir ábyrgðarstöðum í þeim. „Það er efnahagslegur og samfélagslegur ábati, það er hagur okkar allra að hafa konur með,” sagði Gunnar Bragi.

Á meðal annarra þátttakenda í ráðstefnunni voru Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Marriet Schurmann, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra um málefni kvenna, friðar og öryggis, Petr Pavel, formaður hermálanefndar NATO og Gary Barker, baráttumaður fyrir kynjajafnrétti. Að lokinni Rakararáðstefnu ræddu fastafulltrúar bandalagsins jafnréttismál og hlutverk karla á fundi sem fastafulltrúi Íslands stjórnaði.

Fyrir Rakarastofuráðstefnuna áttu Gunnar Bragi og Stoltenberg fund þar sem þeir ræddu um jafnréttismál og Rakararáðstefnuna. Þá ræddu þeir stöðu öryggis- og varnarmála í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í Varsjá í júlí nk. og aukin framlög Íslands til varnarmála.


Tengdar fréttir

Ísland stendur fyrir karlaráðstefnu um kvenréttindi

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra boðaði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær að Ísland og Súrinam muni leiða saman karlkynsleiðtoga til að ræða kvenréttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×