Innlent

Dæmdur í nálgunarbann vegna gruns um kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu

Anton Egilsson skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að karlmaður skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart þroskaskertri konu. Grunur leikur á að maðurinn hafa brotið kynferðislega á konunni en brotin eiga að hafa átt sér stað á heimili mannsins á haustmánuðum 2014.

Nálgunarbannið er til þriggja mánaða en samkvæmt því er lagt bann við því að maðurinn komi á eða sé við lögheimili konunnar eða heimili föður hennar, nálgist hana á almannafæri á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus eða setji sig í samband við hana með nokkru móti.

Káfaði á kynfærum hennar

Konan kynntist manninum þegar þau hófu að vinna saman en upp úr því samstarfi fór að myndast vinátta þeirra á milli.

Í skýrslu sem faðir konunnar gaf hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum segir að maðurinn hafi boðið konunni heim til sín í nokkur skipti en þar hafi þau oft kúrað saman. Hann segir að dóttir sín hafi greint honum frá því  að maðurinn hafi í nokkur skipti káfað á kynfærum hennar, bæði innan klæða og utan. Sagði hann að dóttir hans hafi ekki viljað eða getað greint frá því hvað maðurinn hefði gengið langt. Þá hafi hún einnig greint honum frá því að hann hafi beðið um að fá að sjá kynfæri hennar en það hafi verið óljóst í frásögn hennar hvort hún hafi sýnt honum eitthvað eður ei.

30 ára aldursmunur

Í matsgerð sem lögð var fyrir dóminn kemur meðal annars fram að greindarvísitala konunnar sé á stigi vægrar greindarskerðingar, en vegna einhverfueinkenna og skorts á aðlögunarhæfni verði að telja að skerðing hennar sé meiri en niðurstöður greindarprófs gefa til kynna. Einnig taldi matsmaður að konan eigi af þessum sökum erfitt með að setja manninum mörk en gagnvart henni hafi hann yfirburði vegna greindarfars og aldursmunar, en maðurinn er 30 árum eldri.

Konan mótfallin nálgunarbanninu

Hæstiréttur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þrátt fyrir þá staðreynd að konan væri mótfallin nálgunarbanninu. Sagði Hæstiréttur konuna standa höllum fæti gagnvart manninum og því væri hætt við að hann myndi brjóta gegn henni ef friðhelgi hennar er ekki vernduð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×