Enski boltinn

Van Gaal: Aumkunarvert að þú dembir þessari spurningu á mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal og aðstoðarmenn hans hjá Manchester United.
Louis van Gaal og aðstoðarmenn hans hjá Manchester United. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United horfði upp á sína menn tapa 3-0 á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær sem þýðir að United-liðið er nú fjórum stigum á eftir nágrönnum sínum í baráttunni um fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið.

Louis van Gaal sér ekki eftir því að hafa valið Manchester United yfir Tottenham sumarið 2014 þegar honum bauðst knattspyrnustjórastaðan hjá báðum félögunum.

„Áskorunin var meiri fyrir mig að taka við Manchester United og hún verður alltaf stærri. Þið fyrirgefið mér hjá Tottenham en Manchester United er stærri klúbbur en Tottenham," sagði Louis van Gaal við BBC.

Tottenham náði ekki að sannfæra Louis van Gaal um að taka við liðinu en réði þess í stað Mauricio Pochettino. Pochettino hefur gert frábæra hluti með Tottenham sem er núna eina liðið sem á möguleika á því að koma í veg fyrir að Leicester vinni enska  meistaratitilinn.

Van Gaal var ósáttur með að blaðamaðurinn spurði hann út í þetta á þessum tímapunkti, nýbúinn að tapa 3-0 á móti Tottenham.  „Það er svolítið aumkunarvert að þú dembir þessari spurningu á mig núna því þeir unnu leikinn 3-0. Það er auðvelt að spyrja svona. Njóttu þess," sagði Van Gaal með fyrirlitningartón.

Louis van Gaal hefur enn fulla trú á því að hans menn í Manchester United skili félaginu inn í Meistaradeildina.

„Við erum enn á réttu róli. Við getum náð fjórða sætinu enda eru ennþá átján stig eftir í pottinum. Það verður vissulega erfiðara eftir þetta tap en allir geta unnið alla og við erum ennþá með í kapphlaupinu," sagði Van Gaal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×