Fótbolti

Hinn 45 ára van der Sar tók fram hanskana og varði víti - Myndband

Stefán Árni Pálsson skrifar
Van der Sar er algjör goðsögn í fótboltaheiminum.
Van der Sar er algjör goðsögn í fótboltaheiminum. vísir
Edwin van der Sar, fyrrum markvörður Manchester United, tók þátt í leik með sínu gamla félagi VV Noordwijk í hollensku B-deildinni í dag og varði meðal annars vítaspyrnu.

Þessi 45 ára markvörður varð fjórum sinnum enskur meistari og vann Meistaradeild Evrópu einu sinni á þeim sex árum sem hann var í rammanum á Old Trafford.

Van der Sar lék í fimm ár með Noordwijk á sínum unglingsárum áður en hann gekk í raðir Ajax. Hann hefur ekki leikið keppnisleik í fimm ár en ákvað að taka þátt í leiknum í dag vegna meiðslavandræða í herbúðum Noordwijk.

Þessi magnaði Hollendingur varði vítaspyrnu í upphafi leiksins gegn erkifjendunum í Jordan Boys. Hann lék 130 landsleiki á sínum tíma fyrir hollenska landsliðið.

Leikurinn fór 1-1 og stóð van der Sar sig vel en hér að neðan má sjá markvörslu hans í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×