Innlent

Beina sjónum að sjálfsskaða kvenna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Úr nýju myndbandi Út með'a sem fjallar um sjálfsskaða kvenna.
Úr nýju myndbandi Út með'a sem fjallar um sjálfsskaða kvenna. mynd/m.flóvent
Fyrir helgi var ný vefsíða sett í loftið undir merkjum Út með‘a en verkefninu er ætlað að stuðla að bættri geðheilsu almennings og þá sérstaklega á meðal ungs fólks. Í ár beinist verkefnið að sjálfsskaða kvenna, sem er vaxandi vandamál, og hefur Tjarnargatan unnið nýtt myndband sem fjallar um sjálfsskaða en það má sjá á heimasíðu Út með‘a.

Myndbandinu er ætlað að vekja athygli á því að öll burðumst við með einhvers konar farangur í gegnum lífið og besta leiðin til að losna við farangurinn er að ræða vandamálin. Myndbandið býður áhorfendum upp á að hafa bein áhrif og geta þeir fjarlægt farangur leikara með því að draga línu.

Árlega leita á milli 500 til 600 einstaklingar hér á landi til heilsugæslu eða sjúkrahúsa vegna sjálfsskaða, en ungar konur eru í meirihluta þeirra sem leggjast inn á spítala vegna sjálfsskaða. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Út með‘a búa um 50 þúsund manns á Íslandi á aldrinum 14-24 ára en rannsóknir hafa sýnt fram á að 10 prósent ungmenna hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg, og enn fleiri íhugað það.

„Þetta þýðir að um 5.000 ungmenni á Íslandi eru að skaða sig eða hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg. Fullorðnir einstaklingar sem hafa skaðað sig eru 100 sinnum líklegri en aðrir til þess að fremja sjálfsvíg,“ segir á vefsíðunni en þar má nálgast ítarlegri upplýsingar bæði um sjálfsskaða og sjálfsvíg.

Þá má lesa hér viðtal við framkvæmdastjóra Geðhjálpar í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag þar sem hún ræðir Út með‘a og sjálfsskaða ungra kvenna.


Tengdar fréttir

Ungar konur líklegri til að skaða sig en aðrir

Geðhjálp opnar í dag vefsíðu og frumsýnir gagnvirkt myndband um sjálfsskaða. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, hefur háleitar hugmyndir fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×