Enski boltinn

Touré: Evrópudeildin getur bjargað tímabilinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolo Touré í baráttunni við bróður sinni Yaya í úrslitaleik deildabikarsins.
Kolo Touré í baráttunni við bróður sinni Yaya í úrslitaleik deildabikarsins. vísir/getty
Kolo Touré, miðvörður Liverpool, segir að Evrópudeildin geti bjargað tímabilinu hjá liðinu.Liverpool á litla sem enga möguleika á Meistaradeildarsæti, en það er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig eftir 26 leiki.

Það á leik til góða líkt og Manchester City sem er í fjórða sæti deildarinnar með 47 stig, en Liverpool er níu stigum á eftir City í baráttunni um síðasta Meistaradeildarsætið.

Þá tapaði Liverpool einmitt fyrir City í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudaginn í vítaspyrnukeppni þar sem Willy Caballero, argentínskur varamarkvörður Manchester City, reyndist óvænt hetja.

„Sigur í Evrópudeildinni getur bjargað tímabilinu okkar og þá er öll nótt ekki úti enn í úrvalsdeildinni,“ segir Touré, en Liverpool mætir Manchester United í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

„Það er mikið af leikjum eftir. Næst er það leikur í deildinni sem er mjög mikilvægur. Við þurfum að hætta að hugsa um þetta tap og einbeita okkur að næsta leik sem verður erfiður.“

Næsti leikur Liverpool er einmitt á móti Manchester City í deildinni annað kvöld á Anfield, en fyrr á tímabilinu unnu lærisveinar Jürgens Klopps glæsilegan 4-1 sigur á City á útivelli.

„Við getum náð í þrjú stig gegn City. Við höfum gert það áður og úrslitaleikurinn sýndi að bæði lið geta unnið hvort annað,“ segir Kolo Touré.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×