Lífið

Blóð, sviti og tár

sigga dögg skrifar
Vísir/Einkasafn
Helga Lilja er fatahönnuðurinn að baki merkinu Helicopter sem hefur prýtt ófáar glæsikonur hér á landi. Helga er útskrifaður fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands en námið þótti henni mikil áskorun.

„Ég var svo ung þegar ég var í Listaháskólanum og þar er mikið verið að rífa mann niður en einnig byggja mann upp en ég held að ég hafi aðallega tekið á móti niðurrifinu,“ segir Helga þegar hún lítur til baka. „Það tekur tíma og þroska að finna hver maður er sem hönnuður og á þessum tímapunkti þá átti ég erfitt með að finna mig og standa með mér,“ segir Helga og bætir við að hún hafi verið eini nemandinn úr hennar hópi sem ekki ætlaði að vera með eigið fatamerki.

„Þetta er svo mikið hark og ég vissi það áður en ég kláraði skólann svo ég stefndi alltaf á að vinna hjá öðrum,“ segir Helga.

Vísir/Stefán
Fatahönnun er hark

Það var svo þegar Heiða úr Nikita keypti sér peysu sem Helga hafði saumað að spennandi tækifæri bankaði upp á, en þá var Helga verslunarstjóri í Trilogiu. „Heiða bauð mér starf sem hönnuður hjá Nikita og það var algjör draumur, enda frábært að starfa þar,“ segir Helga og segir tímann hafa verið lærdómsríkan.

„Ég lærði svo margt um viðskiptin á bak við það að vera hönnuður þegar ég starfaði hjá þeim og það var ómetanlegt til að gefa mér sjálfstraustið og þekkinguna til að fara almennilega af stað með Helicopter,“ segir Helga. 

Helicopter hefur svo sannarlega farið vel af stað en fimm ár eru síðan Helga Lilja tók stökkið út í djúpu laugina. „Að segja að þetta sé blóð, sviti og tár nægir engan veginn til að lýsa því hvernig það er að vera fatahönnuður því þetta er hark, alla daga og alltaf, og oft stendur maður aleinn með sigrana og sorgina og það tekur á,“ segir Helga Lilja.

„Ég hef fjórum sinnum ætlað að hætta, bara gefast upp og sleppa þessu öllu saman, en svo ákveð ég alltaf að gefa þessu smá meiri tíma,“ segir Helga sem sér ekki eftir því enda eru flíkurnar mjög eftirsóttar. Helga er einnig einn eigenda tískuverslunarinnar Kiosk, sem selur eingöngu flíkur eftir vel valda íslenska hönnuði.

„Það að fá að taka þátt í Kiosk er ómetanlegt fyrir mig og hönnuðirnir þar eru svo klárir og gaman að vera hluti af svona frjóu teymi af snillingum,“ segir Helga Lilja af ákafa með glampa í augum.

Vísir/Stefán
Ástin á Airwaves

Helga Lilja býr í Berlín ásamt ástmanni sínum, tónlistarmanninum Stephan Stephensen, fyrrverandi GusGus-meðlimi. Helga Lilja segir ástina hafa læðst upp að sér þegar hún átti síst von á henni.

„Ég var ein á göngu í miðbænum, eitthvað sem gerist aldrei því maður er í raun aldrei einn á djamminu, en þarna var ég á leið að sjá uppáhaldshljómsveitina mína á Airwaves þegar ég mæti honum,“ segir Helga Lilja, sem neitar því ekki að fiðrildin hafi farið af stað. Það sem gerist næst er klippt beint úr rómantískri bíómynd.

„Stebbi er í símanum og við mætumst þarna, bæði ein, og þegar hann sér mig þá bara slekkur hann á símanum í miðju samtali og spyr hvert ég sé að fara og hvort hann megi koma með,“ segir Helga Lilja og skellir upp úr.

Helga segir að Stebbi hafi haft augastað á sér og þarna hafi örlögin loksins ýtt þeim saman. „Eftir þrjá daga spurði hann hvort ég vildi byrja með honum,“ segir Helga brosandi og segir sagan okkur það að ekki stóð á jákvæðu svari. 

Þau eru ævintýragjörn og ferðast saman um allan heim auk þess að sigla um á skútu sem Stebbi á ásamt vinum sínum. Lífið er samt ekki eitt stórt teiti því bæði eru þau sjálfstætt starfandi listamenn.

„Það getur verið erfitt að samstilla sig þegar við erum bæði heima að vinna því ég er stundum ekki í stuði og fer að trufla hann en þá er hann á fullu og öfugt svo við höfum lært að það er betra að vera með vinnustofu, með öðru fólki líka,“ segir Helga Lilja og leggur áherslu á mikilvægi þess að komast út af heimilinu til að vinna.

Helga Lilja og Stebbi í peysunum sem þau hönnuðu "Bið að heilsa niðrí Slipp"Vísir/Einkasafn
Blómin í Berlín

Það var fyrir tveimur árum, á köldum vetrardegi, sem Helga Lilja fékk nóg. „Maður er alltaf að berjast við eitthvað brjálað veður og ég kom heim eitt kvöldið og bara gargaði á Stebba að nú hefði ég fengið nóg, ég vildi flytja og það strax,“ segir Helga Lilja ákveðin.

Það stóð ekki á Stebba sem pakkaði niður í tösku og fann fyrir þau hús í litlum bæ í Frakklandi. „Þetta var einmitt það sem ég, og hann, þurftum á að halda, bara að vera að dúllast í litlu þorpi þar sem var hlýtt og notalegt og við gátum bara notið þess að vinna í friði og vera saman,“ segir Helga Lilja. Það var svo brúðkaup í Hamborg sem tældi þau til Berlínar.

„Æ, við hugsuðum bara að fyrst við vorum hvort sem er að fara þangað í brúðkaup þá gætum við allt eins flutt svo við þyrftum ekki að kaupa annan flugmiða seinna meir,“ segir Helga Lilja og sér sko aldeilis ekki eftir því í dag.

„Lífið í Berlín er frábært, það eru allir svo slakir og rólegir og maturinn er frábær, svo ekki sé talað um að þar er ódýrara að lifa,“ segir Helga sem sér ekki fyrir sér flutninga heim til móðurlandsins í náinni framtíð. 

Helga Lilja í kastala í Carcasonne í FrakklandiVísir/Einkasafn
Tískuveldi verður til

Það er margt spennandi á döfinni hjá Helgu Lilju og þegar hún er spurð hvert Helicopter stefnir þá vantar ekki stóru orðin.

„Mig dreymir um að Helicopter verði tískuveldi þar sem margar ólíkar línur og merki eru framleidd undir sama yfirmerkinu,“ segir Helga Lilja sem hefur nú þegar tekið skrefin í átt að slíku markmiði.

„Ég er að re-branda merki, HCPTR by Helicopter, og verður það fínni lína en svo langar mig líka að gera barnalínu og ég er í alls konar samstarfi með ólíkum listamönnum,“ segir Helga Lilja og glottir. Hún má ekki greina frá öllu en getur þó gefið nokkra mola.

„Ég er að hanna munstur upp úr teiknimyndunum hans Hugleiks Dagssonar og það er mjög spennandi og skemmtilegt,“ segir Helga. Hún er einnig í samstarfi við ástmann sinn. „Við erum með stórar og miklar peysur sem kallast „Bið að heilsa niðrí Slipp“ en við erum að skoða næstu línu og það er bara mjög gaman að vinna svona saman.“

Það er því margt á döfinni hjá þessari ungu konu og ef lesendur vilja kynna sér nánar flíkurnar hennar þá fást þær í Kiosk á Laugaveginum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×