Sport

Helgi setti heimsmet

Helgi að vonum ánægðu með heimsmetið.
Helgi að vonum ánægðu með heimsmetið. mynd/kári jónsson
Spjótkastarinn Helgi Sveinsson úr Ármanni bætti í kvöld heimsmetið í spjótkasti í flokki F42 er hann keppti á JJ- móti Ármanns á Laugardalsvelli.

Þar með er heimsmet Kínverjans Yanlong Fu fallið en það var 52,79m. svo um risavaxna bætingu er að ræða.

Á dögunum hafði Helgi einmitt hótað þessu þar sem hann hjó nærri heimsmetinu á vormóti HSK á Selfossi. Kastið í kvöld var ekki bara heimsmet heldur líka nýtt Evrópu- og Íslandsmet eins og gefur að skilja.

Helgi er ríkjandi Heims- og Evrópumeistari í greininni og síðar á þessu ári eða í októbermánuði fer fram heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum í Doha í Katar.

Kastsería Helga í kvöld:

x - 49,34 - 48,77 - 52,13 - 54,62 - P

Helgi var ekki einn á ferðinni úr röðum fatlaðra á JJ mótinu í kvöld sem settu Íslandsmet en það gerði Patrekur Andrés Axelsson einnig í flokki T12, flokkur blindra/sjónskertra, er hann hljóp 100 metrana á 13,53 sekúndum. Þar með eru Íslandsmetin í frjálsum á árinu 2015 orðin samtals tuttugu.

Í júní mun vaskur hópur halda frá Íslandi til þátttöku í opna ítalska meistaramótinu í Grosetto en Helgi og Patrekur verða þar á meðal keppenda ásamt Stefaníu Daneyju Guðmundsdóttur, Huldu Sigurjónsdóttur og Arnari Helga Lárussyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×