Telati fjölskyldan er orðin Íslendingum góðkunn en raunir hennar rötuðu fyrst í fjölmiðla þann 30. september síðastliðinn. Þá greindi Vísir frá því að systkinin Laura, Janie og Petrit fengju ekki að ganga í skóla sem þau þó sáu út um gluggann á tómri stofunni í íbúð þeirra í Laugardal.
Því máli lauk með besta móti og hafa börnin nú stundað skólana í Laugarneshverfinu síðustu tvær vikur. Þau eru öll þrjú ánægð í skólanum og hafa kynnst mörgum vinum.
Rætt var við fjölskylduna og nágranna þeirra í ljósi tíðinda föstudagsins í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Fréttina má sjá hér að neðan.
Foreldrar þeirra, Hasan og Alketa, höfðu þá sótt um hæli á Íslandi og biðu viðbragða. Svarið barst svo loks á föstudag, beiðni þeirra var synjað og þeim gert að halda aftur til Albaníu.
Mikil reiði braust út í kjölfar þessara tíðinda, reiði og sorg og það má glögglega sjá ef skautað var yfir samfélagsmiðilinn Facebook. Vísir tók saman dæmi sem fráleitt eru tæmandi um þau orð sem látin voru falla vegna þessarar niðurstöðu, sem fólk átti afar erfitt með að sætta sig við.
Sjá einnig: Mikil reiði og sorg vegna niðurstöðu Útlendingastofnunar

„Þetta er alveg harðduglegt og fallegt fólk sem á ekki afturkvæmt til Albaníu. Þó það sé ekki stríð þar þá geta verið ýmsir aðrir hlutir sem gera það að verkum að þú verðir að yfirgefa heimili þitt. Ég er tilbúinn að aðstoða þau með ýmislegt og ég hef klárlega vinnu fyrir þau hjá mér, “ sagði Sólveig, Solla, af því tilefni.
Sjá einnig: Tilbúin að bjóða Albönunum vinnu á Gló
Rithöfundurinn Illugi Jökulsson stendur fyrir undirskriftalistanum „Leyfum albönsku Telati fjölskyldunni að setjast að á Íslandi.“ Við listann skrifar Illugi:
Við undirrituð botnum ekki í því af hverju hinni fimm manna Telati fjölskyldu frá Albaníu er ekki leyft að setjast hér að. Við krefjumst þess að Útlendingastofnun breyti hið bráðasta þeirri ákvörðun að vísa fjölskyldunni úr landi.
Fjölskyldan frá Albaníu eru hjón með þrjú börn, níu, þrettán og fimmtán ára. Þau vilja setjast hér að til frambúðar, börnin vilja ganga í skóla og hjónin vilja vinna fyrir sér. Við sjáum nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að óskir þeirra séu uppfylltar.
Ef þessari fjölskyldu væri vísað úr landi yrði það skammarlegur blettur á okkur og samfélagi okkar. Leyfum þeim að búa hér ef þau vilja, eins og við viljum fá að búa í friði þar sem við kjósum.