Innlent

Fengu ekki aðgang að prófheftinu í samræmda prófinu

Atli Ísleifsson skrifar
Við fyrirlögn rafrænna prófa er notaður alþjóðlega viðurkenndur prófgerðarhugbúnaður sem nýttur hefur verið með góðum árangri í öðrum löndum, segir í tilynningu frá Menntamálastofnun.
Við fyrirlögn rafrænna prófa er notaður alþjóðlega viðurkenndur prófgerðarhugbúnaður sem nýttur hefur verið með góðum árangri í öðrum löndum, segir í tilynningu frá Menntamálastofnun. Vísir/Getty
Villa kom upp í prófakerfi þegar samræmt próf í ensku var lagt fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla í gær.

Í tilkynningu frá Menntamálastofnun segir að samhliða venjulegri fyrirlögn enskuprófsins var áætlað að forprófa rafræna útgáfu þess meðal þrjú hundruð grunnskólanemenda í tólf grunnskólum.

„Við forprófunina kom því miður upp villa í aðgangsstýringarhluta prófakerfisins sem olli því að nemendur fengu ekki aðgang að prófheftinu. Þegar var brugðist við með því að nemendur fengu í hendur hefðbundið próf á pappír og var gefinn jafnlangur tími og aðrir fengu til að leysa prófið.

Við fyrirlögn rafrænna prófa er notaður alþjóðlega viðurkenndur prófgerðarhugbúnaður sem nýttur hefur verið með góðum árangri í öðrum löndum. Þegar er hafin vinna við að leita lausna til að fyrirbyggja að villa sem þessi endurtaki sig og mun Menntamálastofnun kalla eftir fundi hjá framleiðendum hugbúnaðarins á næstunni til að fara yfir þessi mál og leita úrbóta.

Að mati Menntamálastofnunar munu rafræn próf leysa pappírspróf að mestu af hólmi í náinni framtíð og munu slík próf gagnast skólum, nemendum og stofnuninni sjálfri, við próftöku og yfirferð. Áður en lengra er haldið með innleiðingu rafrænna prófa þarf þó að bæta alla verkferla sem lúta að framkvæmd, kynningu og undirbúningi verkefnisins og mun starfsfólk Menntamálastofnunar vinna að því í samstarfi við skóla.

Menntamálastofnun biður kennara og nemendur velvirðingar á þeim óþægindum sem þeir urðu fyrir vegna þessarar villu og vonar að hún hafi ekki haft neikvæð áhrif á þátttöku nemenda í enskuprófinu. Jafnframt þakkar stofnunin skólastjórnendum, kennurum, tæknifólki og nemendum sem tóku þátt í þessari tilraun fyrir aðstoð og þolinmæði og vonast eftir góðu samstarfi áfram um þróun rafrænna prófa,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×