Innlent

Vilja að námsmenn njóti sömu kjara á leigumarkaði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill jafna kjör námsmanna á leigumarkaði.
Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill jafna kjör námsmanna á leigumarkaði. vísir/vilhelm
Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill að allir námsmenn, á framhalds- og háskólastigi, njóti allir sömu kjara á leigumarkaði. Lagt hefur verið fram frumvarp um að breyting verði gerð á lögum um húsaleigubætur þannig að stúdentar sem leigja saman á almennum markaði njóti sömu kjara og þeir sem fái sérstakar stúdentaíbúðir.

Þetta er í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram. Það hlaut góðan hljómgrunn hjá velferðarnefnd sem lagði til að það yrði samþykkt óbreytt. Þá var lýst yfir stuðningi við frumvarpið á síðasta þingi í tíu af ellefu umsögnum sem um það bárust.

Í frumvarpinu segir að húsnæðisvandi námsmanna sé allverulegur og að námsgarða skorti mjög. Því grípi margir námsmenn til þess ráðs leigja íbúð á hinum almenna markaði. Oft sé íbúðinni deilt með öðrum námsmönnum, en að meginreglan varðandi þá sem búi í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og salerni sé sú að þeir skuli ekki njóta húsaleigubóta. Slíkt fyrirkomulag teljist ekki til „íbúðarhúsnæðis“. Þá kveði lögin á um að námsmenn á heimavist eða námsgörðum njóti réttar til húsaleigubóta, þó þeir deildu aðgangi að eldhúsi og baði.

„Í ljósi þess að ekki er nægilegt framboð af heimavist eða námsgörðum, og fjölmargir námsmenn geta því ekki nýtt sér slíkt búsetuúrræði, er hér lagt til að sú takmörkun verði felld brott. Þar með verði aðstæður stúdenta jafnaðar og þeir njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja á námsgörðum eða á almennum markaði,“ segir í frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×