Alfreð Finnbogason lék síðustu sex mínúturnar þegar Olympiakos vann 0-2 sigur á Veria í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Alfreð hefur fengið fá tækifæri með Olympiakos á tímabilinu en hann er í láni frá Real Sociedad á Spáni. Alfreð hefur einungis komið við sögu í fimm leikjum og leikið samtals 130 mínútur á tímabilinu.
Brown Ideye og Jimmy Durmaz skoruðu mörk Olympiakos í seinni hálfleiknum en liðið hefur unnið alla níu deildarleiki sína á tímabilinu.
Olympiakos er með 27 stig á toppi deildarinnar, níu stigum á undan Panathinaikos.
