Enski boltinn

Eiður skoraði í öðrum leiknum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki sínu.
Eiður Smári fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen var aftur á skotskónum þegar Bolton vann öruggan 0-3 sigur á Cardiff á útivelli í ensku B-deildinni í fótbolta í dag. Þetta var fyrsti sigur Bolton í fjórum leikjum.

Eiður var hetja Bolton á laugardaginn þegar hann skoraði jöfnunarmark liðsins gegn Blackpool og hann endurtók leikinn í dag. Þetta er í fyrsta sinn frá því í október 2004 sem Eiður skorar í tveimur deildarleikjum á Englandi í röð.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 55. mínútu kom Eiður gestunum á bragðið þegar hann skoraði með góðu vinstri fótar skoti eftir undirbúning Emile Heskey. Þetta var sjötta mark Eiðs fyrir Bolton síðan hann gekk í raðir liðsins undir lok síðasta árs.

Aron Einar var í byrjunarliði Cardiff í dag.vísir/getty
Fjórum mínútum eftir mark Eiðs tvöfaldaði Craig Davies forskot Bolton og hann gulltryggði svo sigurinn með öðru marki sínu á 73. mínútu. Skömmu síðar var Eiður tekinn af velli.

Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Cardiff en var tekinn út af á 66. mínútu.

Kári Árnason og félagar í Rotherham unnu mikilvægan 1-0 sigur á Brighton á heimavelli. Matt Derbyshire skoraði eina mark leiksins á 8. mínútu.

Kári lék allan leikinn á miðjunni hjá Rotherham sem komst með sigrinum upp í 20. sæti deildarinnar. Liðið er nú sjö stigum frá fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×