Innlent

Jeppi í ljósum logum á Bústaðavegi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron ók bílnum upp á gangstétt og stóðu ljósi  logar undan bílnum.
Aron ók bílnum upp á gangstétt og stóðu ljósi logar undan bílnum.
„Það halda allir að þetta sé tekið á setti því ég er leikmyndahönnuður,“ segir Aron Bergmann Magnússon sem lenti í óvæntu atviki sem reyndist sem betur fer ekki alvarlegt í Reykjavík á níunda tímanum í gærkvöldi. Aron var á leiðinni með Nizzan Terrano jeppann sinn á verkstæði og ók vinur hans bíl í humátt á eftir honum til að geta skutlað honum. 

Þeir félagar voru í nágrenni gatnamóta Bústaðavegar og Grensásvegar þegar eldur kviknar í jeppanum.

„Hann byrjar að flauta fyrir aftan mig og þá áttaði ég mig á því hvað var í gangi,“ segir Aron sem stöðvaði bílinn um leið og stökk út. Hljóp hann sem leið lá í næstu blokk, hringdi á allar bjöllur þar til eldri maður útvegaði honum slökkvitæki. Í kjölfarið mætti lögregla og slökkvilið á staðinn og gekk nokkuð greiðlega að slökkva eldinn.

Eldsupptökin voru við púströrið þar sem Aron segir drasl hafa safnast saman. Svo virðist sem um ofhitnun hafi verið að ræða en leiðinlegur gangur hafði verið í bílnum sem var ástæða þess að bíllinn var á leiðinni á verkstæði.

Aron á vettvangi í gærkvöldi með slökkvitækið sem eldri maður í næstu blokk útvegaði honum.
Aðspurður hvort hann hafi ekki verið skelkaður þegar eldurinn kom upp segir Aron „samt ekki“. Þetta hafi þó verið mikil upplifun.

„Mér brá að sjá eld undir bílnum og hugsaði hvort hann væri að fara,“ segir Aron nokkuð yfirvegaður yfir öllu saman. Að slökkvistarfi loknu var bíllinn svo dreginn á verkstæði.

Aron upplýsir að vinur hans, Bjarni Þór Sigurbjörnsson sem betur er þekktur sem Bjarni Massi, hafi nefnt að þetta væri einn hlutur sem væri hægt að stroka útaf listanum - „búið að kvikna í bílnum“. Annars hafi þetta verið ágætt ævintýri á fimmtudagskvöldi.

Eldri maðurinn sem útvegaði Aroni slökkvitæki fær hlýjar kveðjur frá leikmyndahönnuðinum og sömuleiðis lögregla og slökkvilið fyrir vel unnin störf. Aðspurður hvernig hann ætli að komast á milli á meðan bíllinn er á verkstæði segir Aron:

„Það er bara hjólið. Það þýðir ekkert annað.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×