Innlent

Ráðherra heimilar að flytja inn sæði og fósturvísa holdanauta

Atli Ísleifsson skrifar
Landsamband kúabænda hefur þrýst mjög á að innflutningurinn verði heimilaður.
Landsamband kúabænda hefur þrýst mjög á að innflutningurinn verði heimilaður. Vísir/Stefán
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð sem heimilar innflutning á erfðaefni nautgripa. Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að flytja inn sæði og fósturvísa holdanauta.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að tilgangurinn sé að efla innlenda framleiðslu á nautakjöti, en Landsamband kúabænda hefur þrýst mjög á að innflutningurinn verði heimilaður.

„Innflutningur erfðaefnis og eldi á nautgripum, sem af því vaxa, verður háð ströngum skilyrðum og mun Matvælastofnun fylgjast með því að þeim verði framfylgt.  Eingöngu má nota erfðaefnið á sérstökum einangrunarstöðvum sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar.

Gangi áætlanir Landssambands kúabænda eftir má gera ráð fyrir að fyrstu gripirnir sem vaxa af innfluttu erfðaefni muni fæðast næsta vor. Eftir það verða að líða 9 mánuðir áður en heimilt verður að flytja gripina af einangrunarstöð.

Framleiðsla á nautakjöti innanlands hefur undanfarin ár ekki náð að anna eftirspurn og nam innflutningur á nautakjöti rúmum 1.000 tonnum í fyrra. Stefnir í að meira þurfi að flytja inn til að mæta sífellt meiri eftirspurn. Ekki síst vegna fjölgunar erlendra ferðamanna,“ segir í tilkynningunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra segir það ánægjulegt og í raun forsenda fyrir aukinni framleiðslu á nautakjöti hér á landi, að fá nýtt erfðaefni. „Spurn eftir nautakjöti hefur aukist stórlega á undanförnum árum og ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem segir að ríkisstjórnin muni gera íslensum landbúnaði kleift að nýta þau sóknartækifæri sem greinin standi frammi fyrir. Aukin framleiðsla á nautakjöti er svo sannarlega eitt þeirra tækifæra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×