Innlent

Kjötið fer á markað 2019 eða 2020

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sigurður segir að fyrsta kjötið gæti komið á markað á árunum 2019 til 2020.
Sigurður segir að fyrsta kjötið gæti komið á markað á árunum 2019 til 2020. Fréttablaðið/Stefán
„Það er heilmikill ávinningur í að ná í nýtt erfðaefni í þessa holdanautastofna okkar, þá bæði fyrir kjötgæði og kjötmagn og þannig möguleika greinarinnar til að viðhalda tekjum og mæta þörfum markaðarins um magn,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur undirritað reglugerð sem heimilar flutning á erfðaefni nautgripa til landsins. Þar er um að ræða sæði og fósturvísa til nautaeldis. Sigurður Loftsson segir að Landssambandið hafi upphaflega haft aðrar hugmyndir um málið en að þetta hafi verið lendingin eftir umfjöllun fagaðila um dýraheilbrigði og sjúkdómavarnir.

Tilgangur reglugerðarinnar er að efla nautakjötsframleiðslu á landinu. Nautaeldi af þessum toga verður háð ströngum skilyrðum en kálfar ræktaðir með þessum hætti þurfa að dvelja í einangrunarstöð fyrstu 9 mánuði lífs síns.

Sigurður Loftsson
Sigurður segir að næstu skref séu að fjármagna og setja upp einangrunarstöðina. „Ef það tekst í haust er hægt að sækja fósturvísa til Noregs.“ Hann reiknar með að fyrsta kjötið komi á markað á árunum 2019 til 2020.

Sigurður segir að ekki sé hægt að ræða um nýjan nautgripastofn á Íslandi þar sem blendingastofnar eru hér þegar til.

Framleiðsla nautakjöts hefur hingað til ekki náð að anna eftirspurn en í fréttatilkynningu segir Sigurður Ingi að innflutningur erfðaefnis sé í raun forsenda þess að annað verði eftirspurn á nautakjötsmarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×