Innlent

Ætla að loka flugbrautinni þótt deiliskipulagið sé ógilt

Una Sighvatsdóttir skrifar
Sagan endalausa um Reykjavíkurflugvöll tók enn einn snúninginn í gær þegar deiliskipulagið, sem gerir ráð fyrir því að þriðja flugbraut vallarins verði lokað, var fellt úr gildi vegan formgalla.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina, fordæmir stjórnsýsluhætti meirihlutans í borgarstjórn.



„Þetta sýnir bara enn og aftur hvað vinnubrögðin eru óvönduð. Við getum nefnt bara til dæmis ferðaþjónustu fatlaðra, Ísraelsmálið og núna flugvallarmálið. Þetta er endalaust að koma upp, aftur og aftur, sem meirihlutinn í borginni er ekki að vinna hlutina faglega."

Reykjavíkurborg stefndi í nóvember ríkinu vegna vandnefna á samningum um að loka brautinni, sem er forsenda þess að byggð rísi á Hlíðarenda. Þótt deiliskipulagið sé ógilt segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að þeirri stefnu verði haldið til streitu.

„Algjörlega, og það er mjög brýnt að innanríkisráðuneytið lokið þriðju brautinni. Það er búið að semja um það og það tengist ekki gildi þessa deiliskipulags sem var verið að fella úr gildi."

Framsókn og flugvallarvinir eru þeirrar skoðunar að byrja verði allt deiliskipulagsferlið aftur frá byrjun. „Við höfum haldið því fram frá því í árslok 2014 að við teljum að deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sé áfátt og eigi að vera ógilt," segir Guðfinna. „Þetta er búð að vera rúmt ár núna sem hefur verð bent á þetta. Meirihlutinn hefur ekki viljað hlusta á okkur, en núna verður að hlusta á úrskurðarnefndina."

Borgarstjóri segir hinsvegar að öll gögn liggi fyrir. Úrskurður nefndarinnar sé óvenjulegur, þó verði hlustað á hann, en það eina sem þurfi að gera sé að auglýsa skipulagið á nýjan leik og samþykkja það aftur óbreytt.

„Úrskurðurinn fjallar um minniháttar hnökra í formlega ferlinu og þá kippum við því bara einfaldlega í liðinn og förum í gegnum það aftur."


Tengdar fréttir

Kostnaðarsamar tafir á Hlíðarendareitnum

Frestun framkvæmda á Hlíðarendasvæðinu vegna niðurstöðu Samgöngustofu um að leyfa ekki verktökum að koma byggingakrönum fyrir á svæðinu kostar byggingaaðila mörg hundruð þúsund króna á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×