Sport

Tímamótakjör í Hörpu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson var kjörinn íþróttamaður ársins í fyrra.
Jón Arnór Stefánsson var kjörinn íþróttamaður ársins í fyrra. Mynd/Ragnar Santos
Samtök íþróttafréttamanna gáfu það út á Þorláksmessu hvaða tíu íþróttamenn eru tilnefndir í ár sem Íþróttamaður ársins sem og hvaða þrír þjálfarar koma til greina sem þjálfari ársins og hvaða þrjú lið koma til greina sem lið ársins.

Kjörið fer nú fram í sextugasta sinn frá upphafi. Í tilefni þessara tímamóta verður kjörinu lýst í sameiginlegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Silfurbergi í Hörpu og fer kjörið fram í kvöld. Íþróttamaður ársins hefur verið valinn frá og með árinu 1956 en þjálfari og lið ársins eru nú verðlaunuð í fjórða sinn. Liðin sem koma til greina í ár eru karlalandslið Íslands í fótbolta og körfubolta og hópfimleikalið Stjörnukvenna. Þjálfararnir sem eru tilnefndir að þessu sinni eru þeir Alfreð Gíslason, Heimir Hallgrímsson og Þórir Hergeirsson.

Fimm konur, fimm karlar, fimm einstaklingsíþróttamenn og fimm hópíþróttamenn koma til greina sem Íþróttamaður ársins. Kona var síðast kjörin fyrir átta árum (Margrét Lára Viðarsdóttir 2007) og einstaklingsíþróttamaður vann síðast árið 2001 eða fyrir fjórtán árum þegar Örn Arnarson vann í þriðja sinn á fjórum árum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir sextíu ára sögu kjörsins þar sem kemur fram hvaða íþróttagreinar hafa eignast Íþróttamann ársins og hvaða íþróttamenn hafa oftast fengið útnefninguna. Þar má einnig sjá hvaða tíu eru tilnefnd að þessu sinni.

Grafík/Fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×