Innlent

Telja að fákeppni ríki á raforkumarkaði

Höskuldur Kári Schram skrifar
Neytendasamtökin telja að fákeppni ríki á raforkumarkaði hér á landi og kalla eftir aðgerðum frá Samkeppniseftirlitinu. Formaður samtakanna segir að markaðurinn sé ekki að vinna í þágu almennings.

Neytendasamtökin ákváðu nýlega að bjóða út rafmagnsverð fyrir sína átta þúsund félagsmenn og var útboðið gert í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Hagvang. Fimm fyrirtæki eru á íslenskum raforkumarkaði en aðeins eitt þeirra sendi inn tilboð sem hljóðaði upp á 0,65 prósenta afslátt.

Neytendasamtökin höfnuðu þessu tilboði þar sem ávinningurinn að þeirra mati var mjög takmarkaður. Formaður samtakanna segir að áhugaleysi raforkufyrirtækjanna á útboðinu bendi til þess að lítil samkeppni sé til staðar á þessum markaði.

„Það er undarlegt að markaðurinn sé þannig að orkufyrirtækin hafi ekki áhuga á nýjum viðskiptavinum,“ segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin hafa óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið skoði málið og grípi til aðgerðar. Samkvæmt samantekt samtakanna er 4,5 prósenta mismunur á hæsta og lægsta verði á raforkumarkaði.

„Það er mjög lítill munur á rafmagni frá einu fyrirtæki til annars og það segir einnig að það er fákeppni á markaðinum,“ segir Jóhannes.

Hann segir markaðurinn sé þannig ekki að vinna fyrir neytendur.

“Það má vel vera að markaðurinn sé að vinna fyrir fyrirtækin í landinu. Mig grunar að neytendur séu í sömu stöðu á raforkumarkaði eins og á eldsneytismarkaði,“ segir Jóhannes.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×