Innlent

Óskýr verkaskipting í máli geðfatlaðra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sjúklingar á réttar- og öryggisgeðdeild þurfa á sérstöku öryggishúsnæði að halda eftir útskrift.
Sjúklingar á réttar- og öryggisgeðdeild þurfa á sérstöku öryggishúsnæði að halda eftir útskrift. Fréttablaðið/Anton
Samvinnuhópur var skipaður af félags- og húsnæðismálaráðherra í júní síðastliðnum til að vinna að málum einstaklinga sem þurfa á öryggisvistun að halda.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að helmingur sjúklinga á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans hafi lokið meðferð en þeir sitji fastir á spítalanum vegna ónógra búsetuúrræða.

Í svari frá velferðarráðuneytinu kemur fram að þar sem verkaskipting sveitarfélaga og ríkis um sérstakt öryggishúsnæði fyrir það fólk sem um ræðir sé ekki skýr hafi hópurinn verið stofnaður til að skerpa þar á.

Hópurinn mun finna leiðir til að tryggja að þjónusta og skipulag við þennan hóp sé í samræmi við lög, alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar og viðurkennd gæðaviðmið. Niðurstöðurnar verða kynntar um mitt næsta ár.

Heilbrigðisráðherra lagði nýlega fram tillögu og markmið um úrræði fyrir geðfatlað fólk sem dvelur á Landspítala vegna skorts á búsetuþjónustu. Þar er stefnt að því að sá hópur sem nú bíður útskriftar af geðdeild verði fluttur í viðeigandi húsnæði fyrir árslok 2016. Sveitarfélög, notendasamtök og Landspítali verða samstarfsaðilar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×