Fótbolti

Hákarlinn Helgi Sig: „Hélt að þeir ætluðu að rassskella mig“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helgi Sigurðsson fagnar marki með Panathinaikos.
Helgi Sigurðsson fagnar marki með Panathinaikos. vísir/gazetta.gr
Þrátt fyrir að fjórtán ár séu liðin frá því Helgi Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, yfirgaf Panathinaikos í Grikklandi virðist hann langt frá því gleymdur í Aþenu.

Helgi, sem fékk viðurnefnið „Hákarlinn“ í Grikklandi, er í viðtali við einn stærsta fréttamiðil landsins þar sem hann ræðir daga sína með Panathinaikos.

Helgi, sem er uppalinn Víkingur og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 1991, gekk í raðir gríska liðsins frá Stabæk árið 1999. Hann skoraði 17 mörk í 47 leikjum á tveimur tímabilum áður en hann fór svo til Lyn í Noregi.

„Mín bestu ár á ferlinum voru hjá Panathinakos. Það var ótrúleg upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Ég eyddi þar frábærum árum með fjölskyldu minni og ég minnist verunnar þar enn nú fimmtán árum síðar,“ segir Helgi í viðtalinu.

Stuðningsmennirnir vildu bara fagna með Helga.vísir/gazetta.gr
Létu steinum rigna yfir rútuna

Grískir stuðningsmenn eru mjög blóðheitir og taka nýjum mönnum sem hetjum. Helgi átti ekki von á móttökunum sem hann fékk þegar hann kom frá Noregi.

„Það var magnað hvernig tekið var á móti mér þegar ég kom til Aþenu. Ég átti aldrei von á að sjá svona marga á flugvellinum. Það var draumi líkast að koma til Aþenu og spila fyrir Panathinaikos. Ég fann fyrir ást stuðningsmannanna,“ segir Helgi.

Hann fékk svo heldur betur að kynnast blóðheitum stuðningsmönnum þegar hann spilaði sinn fyrsta leik. Það var bikarleikur á útivelli gegn Ialisos.

„Það sem kom mér á óvart var þegar stuðningsmenn hins liðsins byrjuðu að láta steinum rigna yfir rútuna okkar. Ég fékk sjokk að sjá það þar sem þetta var minn fyrsti leikur,“ segir Helgi sem skoraði tvö mörk í þeim leik og eftir bæði mörkin komu áhorfendur hlaupandi inn á.

„Ég hélt að þetta væru stuðningsmenn mótherjanna sem ætluðu að rassskella mig og reyndi þá að flýja. Ég fattaði svo að þetta voru stuðningsmenn Panathinaikos sem vildu bara fagna með mér,“ segir Helgi Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×